Fara í efni
Íþróttir

Ungir leikmenn þurfa að læra að vera lykilmenn

Akureyringarnir Andri Mikaelsson, fyrirliði SA, og Uni Steinn Blöndal Sigurðarson á svellinu gegn SR í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Richard Tahtinen tók óvænt við þjálfun karlaliðs SA um áramótin þegar Jamie Dumont, sem var vel liðinn þjálfari og var að gera góða hluti, þurfti frá að hverfa af persónulegum ástæðum. Richard er auðvitað öllum hnútum kunnugur í Skautahöllinni á Akureyri, hefur áður starfað við þjálfun hjá SA.

„Já, íþróttir eru ekki alltaf sanngjarnar, því miður. Já, ég er eiginlega sammála,“ segir Richard þegar blaðamaður afsakar sig með vankunnáttu á íshokkí, en setur engu að síður fram að sér hafi þótt sigurinn ósanngjarn miðað við gang leiksins. „Þetta hefur svolítið verið að segja má trendið í einvíginu að við erum oft að stýra leikjum, en þeir eru klárir þannig lagað séð. Þeir eru vel staðsettir í vörninni og þéttir fyrir framan markið sitt. Þeir bíða eftir okkar mistökum og nýta þau mjög vel,“ segir Richard.

Skautahöllin var troðfull í kvöld og stemningin frábær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

„Þetta snýst um að skora mörk,“ skýtur blaðamaður inn. „Þetta snýst um það. Við vorum ekki að skora úr opnum tækifærum í dag. Við fengum fullt af þeim. Jóhann spilaði vel í markinu og í dag bjargaði hann svolítið liðinu sínu. Hann er stórkostlegur markmaður. En á sama tíma áttum við að nýta okkar færi. Við vorum mikið í sókn, mikið að sækja, en það datt ekki. Við sjáum það þegar við vorum að skora mörk, við vinnum þarna 7-1 og það sýnir hvar við hefðum átt að vera í dag. En svona er þetta,“ segir Richard og bendir á að leikirnir sem SA tapaði hafi verið jafnir leikir. Fyrsti leikurinn hafi til dæmis ekki verið nógu góður, en engu að síður bara eins marks munur. 

Axel Orongan og Unnar Rúnarsson á svellinu í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Richard segir þetta sýna hve mikið býr í liðinu upp á framtíðina. „Þetta er ungt lið og tekur kannski smá tíma að læra að vera í þessari stöðu að vera lykilmenn í liðinu, að taka þá ábyrgð,“ segir Richard Tahtinen, þjálfari karlaliðs SA.

Ekkert silfur silfri betra?

Eins og vera ber að loknum oddaleik í einvígi um Íslandsmeistaratitil fengu SR-ingar bikarinn afhentan, eftir að formaður ÍHÍ hafði gengið á röðina hjá SA Víkingum og tekið í höndina á mönnum. En ekkert var þó hengt um háls Akureyringa. Verðlaunaafhendingin varð þannig hálf vandræðaleg, bæði lið kölluð á bláu línurnar, en engin silfurverðlaun. Það mun vera ákvörðun ÍHÍ og gerðist í fyrsta skipti á dögunum þegar Fjölnir vann titilinn í kvennaflokki. Þá vissu leikmenn SA ekki að engin væru silfurverðlaunin og úr varð vandræðaleg staða, og virtist eitthvað svipað uppi á teningnum í kvöld.

Markverðir liðanna léku báðir mjög vel í kvöld; SR-ingurinn Jóhann Ragnarsson, á efri myndinni, og Akureyringurinn Jakob Jóhannesson. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Það þykir auðvitað góður siður að vera viðstaddur þegar keppinauturinn tekur við sínum verðlaunum, en liðsmenn SA byrjuðu að tínast af svellinu áður en Íslandsbikarinn var afhentur, nokkrir komu aftur og heyrðist sagt að dómarar hefðu gefið leikmönnum leyfi til að fara. Undarlega vandræðalegt einhvern veginn og ótrúlegt ef satt er að verið sé að spara silfurkostnaðinn af því að eftir úrslitaleiki endi þeir hvort eð er allir í rusladallinum. Þetta nær ekki einu sinni 30 silfurpeningum!

Leikmenn SA súrir á svip á meðan Reykvíkingar fengu gullpeninga sína um hálsinn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson