Fara í efni
Íþróttir

Tvö glæsileg mörk og KA vann HK

Markskorarar dagsins, Ásgeir Sigurgeirsson og Daníel Hafsteinsson, fagna frábæru marki þess síðarnef…
Markskorarar dagsins, Ásgeir Sigurgeirsson og Daníel Hafsteinsson, fagna frábæru marki þess síðarnefnda. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

Ásgeir Sigurgeirsson og Daníel Hafsteinsson tryggðu KA-mönnum 2:0 sigur á HK-ingum í dag með glæsilegum mörkum, í Pepsi Max deildinni í knattspyrnu, efstu deild Íslandsmótsins. KA-menn léku loks á Akureyrarvelli (Greifavelli) á nýjan leik og héldu uppteknum hætti. Þeir töpuðu ekki þar í fyrra, unnu reyndar bara tvo leiki og gerðu sjö jafntefli, en höfðu tapað þremur af fjórum heimaleikjum sumarsins á Dalvík. Þar hafa þeir leikið til þessa þar sem Greifavöllurinn þótti ekki orðinn nægjanlega góður fyrr en nú.

Það eftirminnilegasta úr leik dagsins eru mörkin, sem voru af dýrari gerðinni, og veðrið sem er með eindæmum gott á Akureyri í dag. Hitinn vel yfir 20 stig, sumir óopinberir mælar sýndu 25 stig en ekki skal fullyrt hvert rétt hitastig er.

Leikurinn var jafn og gestirnir heldur betri í fyrri hálfleiknum. Munurinn á liðunum var í raun einungis mörkin tvö, enda eru þau talin og ekki annað; fjöldi marka er það eina sem máli skiptir þegar upp er staðið.

  • 1:0 Ásgeir skoraði á 29. mín. Miðvörðurinn Dusan Brkovic tók aukaspyrnu á miðjum vellinum og í stað þess að spyrna hátt og langt inn á teig eins og gjarnan sést sendi hann boltann inn í vítateig hægra megin. Ásgeir fór illa með varnarmann, náði valdi á boltanum og þrumaði honum efst í nærhornið. Einkar vel að verki staðið.
  • 2:0 Daníel Hafsteinsson gulltryggði sigurinn á 50. mínútu, því eftir það var mestur vindur úr gestunum. Andri Fannar Stefánsson sendi boltann inn á vítateig, varnarmaður skallaði frá og þegar boltinn datt fyrir fætur Daníels var hann ekkert að tvínóna við hlutina heldur lét vaða á markið yst úr teignum og boltinn söng í netinu. Það var falleg tónlist í eyrum nærri þúsund áhorfenda, sem skynjuðu án efa að langþráður heimasigur væri í vændum.

Mikkel Qvist, Daninn hávaxni sem lék með KA-mönnum í fyrrasumar og þeir sömdu við á ný þegar Brynjar Ingi Bjarnason var seldur til Ítalíu, var með liðinu í dag í fyrsta skipti eftir að hann snéri til baka. Hann og Dusan Brkovic náðu einkar vel saman í miðju varnarinnar strax í fyrstu tilraun. Varnarleikur KA-liðsins í heild var fínn í dag en sóknaraðgerðir hvorugs liðsins sérlega markvissar enda leikurinn býsna lokaður eins og stundum er sagt; liðin gáfu fá færi á sér.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.