Fara í efni
Íþróttir

Tveggja leikja bann fyrir að hóta dómurum

Stevce Alusovski, þjálfari handboltaliðs Þórs. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Stevce Alusovski, þjálfari handboltaliðs Þórs. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Stevce Alusovski, þjálfari Þórsliðsins í handbolta, var í dag úrskurðaður í tveggja leikja bann; aganefnd HSÍ komst að þeirri niðurstöðu að þjálfarinn hafi haft í hótunum við dómara leiks Þórs og ungmennaliðs Vals um síðustu helgi.

Þjálfarinn verður því fjarri góðu gamni þegar Hörður frá Ísafirði kemur í Höllina á laugardaginn, í síðasta leik ársins. Hörður er í efsta sæti Grill 66 deildarinnar, næst efstu deildar Íslandsmótsins. Þá missir Alusovski af fyrsta leik Þórs á nýju ári, gegn ungmannaliði Hauka í Hafnarfirði 15. janúar.

Norður-Makedóninn hlaut „útilokun með skýrslu vegna grófrar óíþróttamannslegrar framkomu,“ eins og það er orðað, þegar hann ræddi við dómara leiksins þar sem þeir gengu til búningsherbergja í hálfleik viðureignar Þórs og Vals U.

Dómarar skiluðu skýrslu um atvikið og handknattleiksdeild Þórs skilaði inn greinargerð fyrir hádegi í dag. „Aganefnd hefur yfirfarið gögn málsins og komist að þeirri niðurstöðu að umræddur þjálfari hafi haft í hótunum við dómara leiksins,“ segir í úrskurði nefndarinnar.