Fara í efni
Íþróttir

Tryggvi mjög góður og Addi tryggði jafntefli

Arnór Þór Gunnarsson og Tryggvi Snær Hlinason.

Tryggvi Snær Hlinason stóð sig afar vel þegar lið hans, Zaragoza, vann stórsigur á Bilbao, 105:76, í spænsku deildarkeppninni í körfubolta um helgina. Hann gerði átta sig, tók níu fráköst og gaf tvær stoðsendingar. Liðið virðist vera að rétta úr kútnum eftir mjög erfiða byrjun, er komið með átta stig en þó enn í 15. sæti af 19 liðum.

Arnór Þór Gunnarsson tryggði Bergischer jafntefli, 26:26, gegn Göppingen á útivelli í efstu deild handboltans í Þýskalandi; hann jafnaði úr vítakasti þegar ein og hálf mínúta lifði leiks. Bergischer er með 10 stig eftir 11 leiki.

Arnór gerði fjögur mörk, þar af þrjú af vítalínunni. „Þetta var fínt stig en við hefðum getað tekið bæði. Áttum síðustu sóknina en Göppingen náði að brjóta á leikmanni okkar og tíminn kláraðist. Annars var þetta jafn leikur frá fyrstu til síðustu sekúndu. Ég spilaði fyrri hálfleikinn, það eru margir leikir á næstu dögum þannig að þjálfarinn dreifir álaginu vel. Við þurfum að vera ferskir til að reyna að fá sem flest stig í desember,“ sagði Arnór Þór við Akureyri.net. Hann kom tvisvar inn á völlinn í seinni hálfleik, til þess að taka víti.

  • Oddur Gretarsson og félagar í Balingen steinlágu hins vegar á heimavelli þegar Magdeburg kom í heimsókn. Oddur gerði einnig fjögur mörk og skoraði líka úr þremur vítum eins og Arnór. Magdeburg vann 39:26 og Balingen er með 7 stig eftir 12 leiki.
  • „Þeir keyrðu í raun bara yfir okkur! Við héldum í við þá í fyrri hálfleik en svo réðum við ekkert við sóknarleikinn þeirra. Töpuðum flestum einvígjum einn á móti einum í vörninni og þeir fengu færi í nánast hverri einustu sókn. Þetta var slæmt tap eftir ágæta frammistöðu síðustu vikur,“ sagði Oddur við Akureyri.net.
  • Sandra María Jessen spilaði síðustu 10 mínúturnar þegar Bayer Leverkusen vann SC Sand 2:1 á heimavelli í efstu deild þýsku knattspyrnunnar. Sandra og stöllur hennar í Leverkusen eru í fimmta sæti deildarinnar.
  • Sveinbjörn Pétursson lék vel og varði 14 skot, þar af tvö víti, þegar Aue gerði jafntefli gegn Grosswallstadt 27:27 í næst efstu deild þýska handboltans. Rúnar Sigtryggsson stjórnaði liðinu í annað sinn síðan hann tók við stjórninni til bráðabirgða vegna veikinda þjálfarans og hefur nælt í þrjú stig. Góð byrjun það!
  • Illa gengur hjá Aroni Einari Gunnarssyni og félögum í Al-Arabi í katörsku deildinni í fótbolta. Aron lék allan tímann þegar liðið tapaði 2:0 fyrir Al-Duhail í gær. Lærisveinar Heimis Hallgrímssonar í Al-Arabi eru í þriðja neðst sæti deildarinnar með aðeins sex stig eftir níu leiki.