Fara í efni
Íþróttir

Tryggvi með nýjan samning til vors 2023

Tryggvi Snær Hlina­son, bárðdælski landsliðsmaðurinn hávaxni í körfu­bolta, hefur gert nýjan samning við spænska félagið Zaragoza. Samningurinn er til tveggja næstu keppnistímabila, til vors 2023, og með möguleika á framlengingu í eitt ár eftir það.

Tryggvi kom til Zaragoza frá Valencia fyrir tveimur árum og hefur staðið sig afar vel, svo ekki sé meira sagt. Þá verður hlutverk Tryggva með íslenska landsliðinu sífellt veigameira, hann er orðinn lykilmaður og var frábær með liðinu í E-riðli forkeppni heimsmeistaramótsins sem fram fór í Svartfjallalandi á dögunum.

Tölfræði Tryggva með Zaragoza var þessi síðasta vetur: Hann skoraði 7,3 stig að meðaltali í leik í spænsku deildinni, tók 4,8 frá­köst að meðaltali, og vert er að geta þess að Tryggvi var með eina bestu skot­nýt­ingu allra leikmanna deildarinnar. Eftir bestu frammistöðu vetrarins var Tryggvi valinn leikmaður umferðarinnar, þegar hann gerði 24 stig og tók níu fráköst í öruggum sigri Zaragoza á Urbas Fuenlabrada í janúar.

Sá sem þetta skrifar þreytist aldrei á því að minna á tvennt, til að sýna fram á hve ævintýrið um Tryggva er stórkostlegt, og gott að gera það enn einu sinni í tilefni nýja samningsins:

    • Spænska deildin er talin sterkasta landsdeild í Evrópu.
    • Tryggvi Snær Hlinason mætti í fyrsta skipti á körfboltaæfingu í janúar árið 2014 þegar ferillinn hófst með Þór á Akureyri. Síðan eru sjö og hálft ár!

Zaragoza tilkynnti um nýjan samning Tryggva Snæs Hlinasonar á Twitter í dag.