Fara í efni
Íþróttir

Topplið HK sækir Þórsara heim í Þorpið

Þórsarar fagna marki í einum sigurleikja sumarsins, gegn Þrótti úr Vogum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór fær HK í heimsókn í dag í Lengjudeildinni í knattspyrnu, næst efstu deild Íslandsmótsins. Leikurinn hefst klukkan 18.00 á Þórsvellinum – SaltPay vellinum í Þorpinu.

Þórsarar hafa mjög rétt úr kútnum upp á síðkastið eftir rysjótta byrjun; hafa unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum og fimm af síðustu átta og leikið vel þrátt fyrir tap, t.d. í síðustu viðureign, gegn Selfossi á útivelli. Þeir eru nú komnir upp á áttunda sæti með 20 stig eftir 16 leiki.

Lið HK hefur verið mjög öflugt í sumar og er á toppi deildarinnar með 37 stig eftir 16 leiki. HK og Fylkir féllu úr efstu deild í fyrra og stefna hraðbyri upp aftur, eru lang efst í Lengjudeildinni.

HK vann fyrri leikinn við Þór í sumar í Kópavogi. Aron Ingi Magnússon, sem nú er horfinn á braut til Venezia á Ítalíu, skoraði fyrir Þór snemma leiks en heimamenn svöruðu með þremur mörkum og unnu 3:1.