Fara í efni
Íþróttir

Þriðja kynslóðin farin að láta til sín taka!

Knattspyrnumaðurinn Nóel Atli Arnórsson lék sinn fyrsta byrjunarliðsleik með liði Álaborgar um helgina þegar liðið vann 4:3 sigur á Vendsyssel í toppslag næst efstu deildar í Danmörku og fór á toppinn.

Greint er frá þessu á heimasíðu KA.

Nóel er aðeins 17 ára, sonur Arnórs Atlasonar KA-manns, fyrrverandi atvinnu- og landsliðsmanns í handbolta, þjálfara TTH Holstebro í Danmörku og aðstoðarþjálfara íslenska landsliðsins.

„Nóel sem er fastamaður í yngri landsliðum Íslands hefur á undanförnum árum staðið sig frábærlega í akademíu Álaborgar og er heldur betur að koma sér inn í aðallið félagsins. Hann spilaði sinn fyrsta leik fyrir aðalliðið í ágúst mánuði síðastliðnum er hann kom inn á sem varamaður í 8-0 sigri liðsins á Egen í danska bikarnum,“ segir á KA-síðunni.

Arnór faðir hans gerði garðinn sannarlega frægan með handboltaliði KA á sínum tíma, eins og segir á síðunni, og varð bikarmeistari árið 2004. „KA tengingin hjá þeim feðgum er ansi mikil en Nóel hefur flest sumur æft með KA,“ í fréttinni á vef félagsins.

Atli Hilmarsson, faðir Arnórs og afi Nóels Atla, var frábær handboltamaður á sinni tíð, atvinnumaður og landsliðsmaður til fjölda ára. Hann hóf ferilinn með Fram en lék síðan bæði í Þýskalandi og á Spáni. Eftir að Atli lagði skóna á hilluna starfaði hann lengi sem þjálfari og stýrði meðal annars KA og Akureyri - handbolta.