Fara í efni
Íþróttir

Þórsarar töpuðu með sex mörkum í Eyjum

Þórður Tandri Ágústsson, sem hér skorar í fyrstu umferð Olísdeildarinnar gegn ÍR, skoraði fjögur mörk í Eyjum í gær. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar töpuðu með sex marka mun, 30:24, fyrir ÍBV í Vestmannaeyjum í gær í Olísdeildinni, efstu deild Íslandsmótsins í handbolta. Staðan í hálfleik var 17:13 fyrir Eyjamenn.

Eyjamenn voru skrefi á undan allan leikinn, um tíma voru Þórsarar reyndar ekki langt undan, en sigur ÍBV var sanngjarn. Bestur heimamanna var markvörðurinn Petar Jokanovic, sem reyndist Þórsurum óþægur ljár í þúfu. Var frábær.

Þórsarar eru með tvö stig að loknum fjórum umferðum. Þeir unnu ÍR í fyrstu umferð en hafa síðan tapað gegn þremur þeirra liða sem talið er að verði í toppbaráttunni, Valsmönnum á Akureyri og fyrir Íslandsmeisturum og Eyjamönnum á útivelli.

Næsti leikur Þórs er á heimavelli gegn Stjörnunni næsta fimmtudagskvöld, 2. október.

Fjallað var stuttlega um leikinn á mbl.is og þar má m.a. sjá mynd af Eyjamanninum Kára Kristjáni Kristjánssyni sem þreytti frumraun sína í Þórsliðinu. Hann gerði þrjú mörk úr jafn mörgum skotum gegn sínum gömlu félögum. 

Mörk Þórs: Þórður Tandri Ágústsson 4, Oddur Gretarsson 3 (1 víti), Arnór Þorri Þorsteinsson 3, Aron Hólm Kristjánsson 3, Hákon Ingi Halldórsson 3, Kári Kristján Kristjánsson 3, Brynjar Hólm Grétarsson 2, Arnviður Bragi Pálmason 1, Igor Chiseliov 1, Hafþór Már Vignisson 1.

Varin skot: Nikola Radovanovic 11, þar af 1 víti (31,4%) – Patrekur Guðni Þorbergsson 4, þar af 1 víti (44,4%).

Mörk ÍBV: Elís Þór Aðalsteinsson 7, Jakob Ingi Stefánsson 7, Sveinn José Rivera 4, Anton Frans Sigurðsson 4, Daníel Þór Ingason 3, Dagur Arnarsson 3, Andri Erlingsson 1, Ívar Bessi Viðarsson 1.

Varin skot: Petar Jokanovic 17, þar af 2 víti (43,6%) – Morgan Goði Garner 1 (33%).

Öll tölfræðin frá HB Statz