Fara í efni
Íþróttir

Þórsarar töpuðu í hörkuleik – MYNDIR

Þórsarinn Birgir Ómar Hlynsson býr sig undir að senda boltann fyrir markið í dag. Albert Hafsteinsson til varnar. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar töpuðu 3:2 fyrir Akurnesingum á heimavelli í dag í Lengjudeildinni í knattspyrnu, eins og Akureyri.net greindi frá fyrr í dag. Skagamenn eru þar með komnir á toppinn en lið Þórs er í mikilli fallhættu. Tvær umferðir eru eftir af deildinni, Þór er með 24 stig og fjögur  lið jöfn í næst neðsta sæti – efra fallsætinu – með 23 stig.

Þetta var hörkuleikur eins og margar viðureignir Þórs og ÍA í gegnum tíðina. Skagamenn komust snemma í 2:0 en Þórsarar minnkuðu muninn fyrir hlé. Bæði lið fengu færi til að skora meira en tókst ekki, og hið sama var upp á teningnum í seinni hálfleik. Þórsarar gerðu tilkall til vítaspyrnu snemma í seinni hálfleik, sem þeir hefðu með réttu átt að fá, en dómarinn var ekki á þeirri skoðun.

_ _ _ _

0:1 – VIKTOR SKORAR
Skagamenn náðu forystu strax á áttundu mínútu eftir hraða sókn. Einn þeirra tók innkast aftarlega á vellinum vinstra megin þegar vallarklukkan sýndi 7:38 mín. og 20 sekúndum síðar lá boltinn í neti Þórsmarksins. Sóknin var einföld: boltanum kastað inn og þrumað fram völlinn út á vinstri kant. Þar spyrnti Þórsari út af, Skagamaður kastaði í hvelli á Johannes Björn Vall sem sendi inn á teig og þar laumaði Viktor Jónsson sér á milli varnarmanna og skallaði í markið, óverjandi fyrir Aron Birki.

_ _ _ _

0:2 – ARNÓR SKORAR 
Stundarfjórðungur var liðinn þegar ÍA skoraði aftur. Þórsarar misstu boltann klaufalega á miðjum vellinum, Arnór Smárason tók á rás fram á við, gaf á Steinar Þorsteinsson sem sendi inn á teig þar sem Arnór var mættur og skoraði undir Aron Birki sem kom út á móti honum.

_ _ _ _

1:2 – BJARNI GUÐJÓN SKORAR
Þórsarar náðu boltanum á eigin vallarhelmingi, Hermann Helgi sendi þegar í stað fram fyrir miðju á Alexander Má og hann áfram út til hægri á Marc Rochester. Daninn sendi inn á teig þar sem Fannar Daði Malmquist var í upplögðu færi, brotið var á honum en dómarinn gerði vel að blása ekki í flautu sínu því boltinn barst yfir á markteigshornið fjær þar sem Bjarni Guðjón Brynjólfsson var óvaldaður og skoraði af öryggi. Þarna voru 24 mínútur liðnar.

_ _ _ _

ALEXANDER ÓGNANDI
Eftir góða sókn Þórsara þegar rúmur hálftími var liðinn þrumaði Birgir Ómar Hlynsson fyrir markið, boltinn fór í varnarmann og hrökk fyrir fætur Alexanders Más Þorlákssonar sem hitti ekki markið í prýðisgóðu færi. Skömmu síðar skallaði Alexander yfir af stuttu en erfiðu færi.

_ _ _

HÁRFÍNT FRAMHJÁ
Rétt áður en fyrri hálfleik lauk fékk Albert Hafsteinsson Skagamaður sendingu fram völlinn, en skot hans vinstra megin úr teignum fór hárfínt framhjá fjæarstönginni.

_ _ _ _

ÞÓR ÁTTI AÐ FÁ VÍTASPYRNU
Skagamenn sluppu með skrekkinn á 57. mín. Ýmir Már Geirsson átti góða fyrirgjöf frá vinstri inn á markteig þar sem Árni Marinó markvörður ÍA stökk harkalega á Alexander Má um leið og boltinn barst til hans. Þórsarar kröfðu dómarann um vítaspyrnudóm og urðu vægast sagt ósáttir, sennilega má segja furðu lostnir, þegar hann dæmdi hornspyrnu. Markverði ÍA var augljóslega létt.

_ _ _

ENN EITT FÆRIÐ
Árni Marinó varði skot Alexanders Más um miðjan seinni hálfleikinn. Alexander fékk boltann inn á teig eftir laglega sendingu Arons Inga Magnússonar en færið var þröngt og markvörðurinn var snöggur út á móti.

_ _ _

ÚRSLITIN RÁÐAST
Akurnesingar gerðu út um leikinn á 86. mín. (skv. vallarklukkunni). Eftir langa fyrirgjöf frá hægri yfir á markteigshornið fjær skallaði Viktor Jónsson boltann úti í teig á Breka Þór Hermannsson sem skoraði með föstu skoti.

_ _ _ _

BLÓÐIÐ RANN ...
Þegar skammt var eftir sendi Marc Rochester Sörensen fram undir vítateig ÍA þar sem Bjarni Guðjón Brynjólfsson og Skagamaðurinn Hlynur Sævar Jónsson stukku upp og reyndu að ná til boltans en ekki vildi betur til en svo að Hlynur Sævar skallaði harkalega aftan í höfuð Þórsarans. Aukaspyrna var dæmd rétt utan vítateigs, Bjarni Guðjón hresstist eftir aðhlynningu en sá gulklæddi fór af velli vegna þess að hressilega blæddi úr höfði hans.

_ _ _ 

2:3 – NIKOLA KRISTINN SKORAR
Þegar loks gafst tækifæri til að taka upp þráðinn stilltu Skagamenn upp í varnarvegg og einn þeirra fórnaði sér með því að leggjast aftan við vegginn til öryggis. Nikola Kristinn Stojanovic skaut og smellhitti boltann sem þandi út netamöska ÍA-marksins. Glæsilegt mark en kom of seint. Þetta reyndist síðasta spyrna leiksins.

_ _ _

HVERS VEGNA EKKI?
Þorlákur Már Árnason þjálfari Þórs þakkaði dómaratríóinu fyrir leikinn eins og hefð er fyrir en liðurinn önnur mál var augljóslega einnig á dagskrá. Líklegt verður að telja að hann hafi varpað fram þeirri spurningu hvers vegna ekki var dæmd vítaspyrna á 57. mínútu.

_ _ _

Staða neðstu liða í deildinni er þessi:

 • Grindavík 20 leikir – 25 stig
 • Þór 20 leikir – 24 stig
 • Þróttur 20 leikir – 23 stig
 • Grótta 20 leikir – 23 stig
 • Njarðvík 20 leikir – 23 stig
 • Selfoss 20 leikir – 23 stig
 • Ægir 20 leikir – 9 stig

Ægir er löngu fallinn. Þetta eru leikir hinna liðanna sem enn eru í fallhættu:

 • Grindavík – Selfoss
 • Þór - Grindavík
  _ _ _
 • Grótta – Þór
 • Þór – Grindavík
  _ _ _
 • Vestri – Þróttur
 • Þróttur – Afturelding
  _ _ _
 • Grótta – Þór
 • ÍA – Grótta
  _ _ _
 • Njarðvík – ÍA
 • Fjölnir – Njarðvík
  _ _ _
 • Grindavík – Selfoss
 • Selfoss – Vestri

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna á vef KSÍ