Fara í efni
Íþróttir

Þórsarar taplausir og urðu Íslandsmeistarar

Strákarnir í 4. flokki Þórs í knattspyrnu urðu Íslandsmeistarar á sunnudaginn eftir glæsilegan sigur á FH í úrslitaleik, 5:1. Leikið var á heimavelli FH, aðalleikvanginum í Kaplakrika.

Strákarnir hafa leikið frábærlega í allt sumar og eru taplausir í sextán leikjum á Íslandsmótinu og bikarkeppninni, en þeir mæta Breiðabliki í bikarúrslitaleik á Kópavogsvelli um næstu helgi. Áður en að úrslitaleik Íslandsmótsins kom spiluðu Þórsarar 11 leiki í riðli, unnu níu og gerðu tvö jafntefli. Markatala þeirra var 59:7.

Þórsarar komust í 3:0 í Kaplakrika, FH minnkaði muninn fyrir hlé og Þór bætti svo við tveimur mörkum í seinni hálfleik. Mörk Þórs í úrslitaleiknum gerðu Natan Aðalsteinsson, Egill Orri Arnarsson, Kjartan Ingi Friðriksson, Brynjólfur Bogason og Hafþór Ingi Ingason. 

Íslandsmeistararnir eru á myndinni, sem tekinn var eftir sigurinn á FH.

Aftari röð frá vinstri: Ármann Pétur Ævarsson þjálfari, Garðar Marvin Hafsteinsson þjálfari, Natan Aðalsteinsson, Ásbjörn Líndal Arnarsson, Pálmi Þór Helgason, Peter Ingi Helgason, Egill Orri Arnarsson, Sigurður Jökull Ingvason, Kjartan Steinn Jónasson, Kjartan Ingi Friðriksson og Aðalgeir Axelsson þjálfari.

Fremri röð frá vinstri: Kári Jónsson, Ólíver Sesar Bjarnason, Hafþór Ingi Ingason, Sverrir Páll Ingason, Eiður Logi Stefánsson, Einar Freyr Halldórsson fyrirliði, sitjandi, Lárus Sólon Biering Ottósson, Natan Dagur Fjalarsson, Kristófer Kató Friðriksson og Brynjólfur Bogason.