Fara í efni
Íþróttir

Þórsarar semja við víðförulan framherja

Knattspyrnudeild Þórs hefur samið við franska framherjann Dominique Malonga út leiktíðina. Honum er ætla að fylla skarðið sem Spánverjinn Alvaro Montejo skilur eftir sig.

Malonga er 32 ára. Hann er bæði franskur og kongóskur ríkisborgari og spilaði á sínum tíma nokkra landsleiki fyrir Kongó og raunar tvo með U-19 liði Frakklands. Hann hefur komið víða við á löngum ferli og kemur til Þórs frá liði í finnsku 2. deildinni.

Ferilskrá leikmannsins er áhugaverð því á sínum tíma lék hann til dæmis 43 leiki, og gerði 2 mörk, í efstu deild á Ítalíu, Seria A.

Malonga hefur leikið með liðum á borð við Cesena, Vicenza og Tórínó á Ítalíu, Hibernian í Skotlandi og Real Murcia á Spáni. Hann á að baki 43 leiki (2 mörk)  í Seria A, sem fyrr segir, 75 leiki (20 mörk) í næstu efstu deild á Ítalíu, 43 leiki (17 mörk) í næstu efstu deild í Skotlandi og 36 leiki (6 mörk) í næst efstu deild á Spáni, LaLiga 2.