Fara í efni
Íþróttir

Þórsarar sannfærandi og jöfnuðu einvígið

Kristján Páll Steinsson var í miklu stuði í Þórsmarkinu í kvöld. Hér ver hann vítakast seint í leiknum. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar voru sannfærandi þegar þeir sigruðu lið Fjölnis á heimavelli í kvöld í annarri viðureign liðanna í úrslitarimmu um sæti í efstu deild Íslandsmótsins í handbolta. Fimm mörkum munaði í leikslok – úrslitin 25:20 – en sigurinn var öruggari en tölurnar gefa til kynna.

Þórsstrákarnir byrjuðu af feikna krafti, komust í 5:1 og staðan var 8:2 þegar 20 mín. voru liðnar. Eins og sést á tölunum komust gestirnir lítt áleiðis gegn sterkri vörn Þórs og Kristján Páll Steinsson var í ham í markinu.

Staðan í hálfleik var 12:6 og munurinn varð mestur níu mörk, 18:9, þegar tæpar átta mín voru liðnar af hálfleiknum. Fjölnismenn náðu aðeins að laga stöðuna en sigur Þórsara var aldrei í neinni hættu.

Aron Hólm Kristjánsson lék gríðarlega vel í sókninni og gerði 10 mörk. Hér er hann á fleygiferð framhjá vaskri trommusveit Þórsara sem setti skemmtilegan svip á leikinn.

Kristján Páll Steinsson var mjög góður í marki Þórs, varði 13 skot sem sýnist ef til vill ekki sérlega mikið en er engu að síður 39,4% markvarsla. Vörnin var það góð að skotin sem komu á markið voru óvenju fá.

Aron Hólm Kristjánsson var stórgóður í sókninni og markahæstur með 10 mörk. Arnór Þorri Þorsteinsson gerði 4 mörk,  Friðrik Svavarsson og Brynjar Hólm Grétarsson 3 hvor, Jón Ólafur Þorsteinsson 2 og þeir Garðar Már Jónsson, Halldór Kristinn Harðarson og Þormaður Sigurðsson 1 hver.

Áhorfendur voru um 500 og afar góð stemning á leiknum.

Fjölnir vann fyrsta leikinn eftir framlengingu á heimavelli og liðin mætast þriðja sinni næsta föstudagskvöld í Reykjavík. Fjórði leikurinn verður í Höllinni á Akureyri á mánudaginn og sá fimmti, ef með þarf, í Fjölnishöllinni í Reykjavík fimmtudaginn 2. maí. Liðið sem fyrr vinnur þrjá leiki tryggir sér sæti í Olísdeildinni næsta vetur. 

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna