Fara í efni
Íþróttir

Þórsarar hófu einvígið með tapi á Ísafirði

Brynjar Hólm Grétarsson var markahæstur Þórsara á Ísafirði í kvöld með 10 mörk. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar töpuðu með þriggja marka mun, 28:25, fyrir Herði á Ísafirði í kvöld í fyrstu viðureign liðanna í undanúrslitum umspils um sæti í efstu deild Íslandsmótsins í handbolta, Olís deildinni.

Byrjun leiksins var hálfgerð martröð fyrir Þórsstrákana, þeir gerðu aðeins tvö mörk á fyrstu 12 mínútunum og eftir 18 mín. var staðan 9:4. Jonas Meier markvörður Harðar reyndist Þórsurum afar erfiður í kvöld, varði tæp 50% skotanna sem komu á markið, alls 22.

Þrátt fyrir erfiða byrjun munaði ekki nema fjórum mörkum í hálfleik, staðan var þá 14:10, og með gríðarlegri baráttu tókst Þórsurum að minnka muninn í eitt mark, 21:20, um miðbik seinni hálfleiksins. Nær komust þeir hins vegar ekki en Þórsarar sýndu að með eðlilegri spilamennsku eru þeim allir vegir færir gegn liði Harðar.

Mörk Þórs: Brynjar Hólm Grétarsson 10, Arnór Þorri Þorsteinsson 7, Aron Hólm Kristjánsson 3, Sigurður Ringsted Sigurðsson 2, Halldór Kristinn Harðarson 1, Þormar sigurðsson 1, Arnþór Gylfi Finnsson 1.

Varin skot: Tómas Ingi Gunnarsson 11 (28,2%)

Vinna þarf tvo leiki til að komast áfram í úrslitaeinvígi við Fjölni. Þór og Hamar mætast aftur í Hölinni á Akureyri á föstudagskvöldið og þriðja sinni, ef með þarf, á Ísafirði næsta mánudagskvöld.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna