Fara í efni
Íþróttir

Þórsarar fögnuðu sigri eftir mikla spennu

Harrison Butler og Jason Gigliotti léku báðir gríðarlega vel í Borgarnesi í kvöld. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar fögnuðu sigri, 89:87, á Skallagrími í Borgarnesi í kvöld og jöfnuðu þar með einvígi liðanna í átta liða úrslitum 1. deildar karla í körfubolta. Borgnesingar unnu fyrsta leikinn á Akureyri á laugardagskvöldið en það lið fer í fjögurra liða úrslit sem sigrar í þremur leikjum.

  • Skorið eftir leikhlutum: 25:18 – 18:24 – 43:42 –21:20 – 23:27 – 87:89

Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann. Munurinn var eitt stig í hálfleik, heimamönnum í hag eins og sjá má hér að ofan, Skallagrímur var tveimur stigum yfir fyrir fjórða og síðasta leikhluta en Þórsarar unnu hann með fjögurra stiga mun.

Allt var í járnum í lokin:

  • Skallagrímur skoraði úr tveimur vítum þegar ein mínúta var eftir og minnkaði muninn þá niður í eitt stig en Reynir Róbertsson, sem hafði haft óvenju hægt um sig, gerði þriggja stiga körfu þegar 52 sek. voru eftir og Þór var þá kominn með fjögurra stiga forskot.
  • Skallagrímur skoraði aftur úr tveimur vítum þegar 13 sek. voru eftir og þegar 10 sek. lifðu fékk Jasion Gigliotti tækifæri til að gulltryggja sigur Þórs þegar hann fékk tvö vítaskot en brást bogalistin í bæði skiptin.
  • Heimamenn fengu því síðustu sóknina og hefðu getað unnið með þriggja stiga körfu. Þórsarar höfðu vitaskuld engan áhuga á því, Reynir Róbertsson stal boltanum þegar fjórar sek. voru eftir og Þórsarar fögnuðu.
  • Harrison Butler náði sér ekki á strik í fyrsta leik liðanna en annað var aldeilis upp á teningnum í kvöld; hann lék mjög vel, svo og Jason Gigliotti, sem skoraði örlítið minna en tók hvorki meira né minna en 18 fráköst. Þá var Baldur Jóhannesson drjúgur eins og svo oft áður.

Helsta tölfræði Þórsara:

  • Harrison Butler 27 stig, 6 fráköst, 7 stoðsendingar
  • Jason Gigliotti 19 stig, 18 fráköst, 2 stoðsendingar
  • Baldur Jóhannesson 17 stig, 10, fráköst, 1 stoðsending
  • Nóel Hjálmarsson 11 stig, 2 fráköst,
  • Reynir Róbertsson 7 stig, 6 fráköst, 3 stoðsendingar
  • Smári Jónsson 6 stig
  • Hákon Arnarsson 2 stig

Sigra þarf í þremur leikjum til að komast í næstu umferð, liðin mætast næst í Höllinni á Akureyri næsta laugardagskvöld kl. 19.15.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina