Þórsarar á toppinn og gleðin við völd

Þórsarar komu sér í efsta sæti Lengjudeildarinnar, næst efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu, með 3:1 sigri á Njarðvíkingum í Boganum í gær eins og kom fram á Akureyri.net í gærkvöld – sjá hér. Fyrir umferð gærdagsins var lið Njarðvíkur á toppnum.
Mjög góður bragur var á Þórsliðinu, þetta var fimmti sigurinn í röð og sá sjöundi í síðustu átta leikjum. Einn endaði með jafntefli og Þórsarar hafa ekki tapað í deildinni síðan 3. júlí. Þegar 19 umferðir af 22 eru að baki hafa þeir eins stigs forskot á Þróttara, Njarðvíkingar eru aðeins tveimur stigum á eftir Þór og toppbaráttan því hnífjöfn og æsispennandi. Þór hefur 39 stig, Þróttur 38 og Njarðvík 37. Síðan koma HK og ÍR með 34.
FRÁBÆR STEMNING
Mjölnismenn vöknuðu heldur betur til lífsins í gær! Hávær hópur stuðningsmanna Þórs mætti í félagsheimilið Hamar um tveimur klukkustundum fyrir leik og minntu íbúa í nágrenninu á hvað var í vændum með söng og gleðilátum. Fjörið hélt áfram í Boganum og magnaður stuðningur hafði án efa sín áhrif – bæði á heimaliðið og gestina.
_ _ _
STERKUR HÓPUR – GÓÐ STAÐA
Efsta lið Lengjudeildarinnar eftir 22 leiki fer beint upp í Bestu deildina en fjögur næstu í umspil um annað laust sæti í efstu deild og Þórsarar eygja loks raunhæfan möguleika á sæti í hópi þeirra bestu á ný. Þeir hafa ekki leikið í efstu deild í rúman áratug, síðan sumarið 2014.
Leikmannahópur Þórs hefur ekki verið jafn öflugur í langan tíma og nú og breiddin ekki meiri; afbragðs blanda af heimamönnum, flestum ungum að árum en þó með mikla reynslu, og öflugum erlendum leikmönnum. Leikgleði og sjálfstraust geislar af mannskapnum og full ástæða er til bjartsýni en kálið er vitaskuld ekki sopið þó í ausuna sé komið og mikilvægt að halda sér á jörðinni þótt staðan sé vissulega góð.
_ _ _
SIGFÚS SKORAR – EKKERT ÓVÆNT VIÐ ÞAÐ ...
Ekki voru liðnar nema fimm mínútur þegar Þórsarar brutu ísinn. Eftir langa sendingu Þórsara fram völlinn skallaði varnarmaður til baka, Aron Ingi Magnússon fékk boltann í miðjuhringnum, lék nokkra metra áfram áður en hann sendi út til vinstra á Sigfús Fannar Gunnarsson sem skoraði frá vítateigslínu. Mættu því óvænta segir í auglýsingu tryggingafélagsins Vís aftan við markið; skot Sigfúsar eru fyrir löngu hætt að vera óvænt og heldur ekki mörk – þetta var 12. mark hans í deildinni í sumar. Sigfús er markahæstur í deildinni ásamt Adam Árna Róbertssyni í liði Grindavíkur.
_ _ _
„GAMLI, GÓÐI“ RAFAEL VICTOR
Framherjinn Rafael Victor var meiddur í allan vetur og fór rólega af stað í sumar; kom fyrst við sögu seint í júní en í gær kom í ljós að hann hefur náð fyrri styrk. Þetta var lang besti leikur framherjans í háa herrans tíð og vel við hæfi að hann gerði annað mark Þórs. Kristófer Kristjánsson sendi boltann á Rafa þar sem hann var nokkru fyrir utan vítateig, framherjinn sneri sér við, lék að vítateigslínu og sendi boltann neðst í vinstra markhornið með hnitmiðuðu skoti.
Davíð Helgi Aronsson, annar miðvarða Njarðvíkinga, lá á vellinum og svo virtist sem samherjar Davíðs áttuðu sig ekki á aðstæðum því Þórsarinn var á auðum sjó þegar hann fékk boltann. Dómarinn gerði hins vegar hárrétt með því að stöðva ekki leikinn; Davíð Helgi hafði haltrað um stund þegar lið hans hélt í sókn en um leið og Þórsarar náðu boltanum lagðist hann í grasið.
_ _ _
ARON BIRKIR!
Sigfús Fannar þrumaði framhjá Njarðvíkurmarkinu af stuttu færi á upphafssekúndum seinni hálfleiks eftir undirbúning Kristófers og strax í fyrstu sókn Njarðvíkinga þurfti Aron Birkir Stefánsson markvörður Þórs að sýna hvað í honum býr. Njarðvíkingar sóttu hratt, Oumar Diouck sendi boltann utan af vinstri kanti á Viggó Valgeirsson sem skaut yst úr vítateignum, boltinn stefndi upp í samskeytin en Aron Birkir varði frábærlega í horn. Hann þurfti að taka á honum stóru sínum a.m.k. í eitt annað skipti í leiknum og var öryggið uppmálum í nær öllum sínum aðgerðum. Fyrirliði Þórs hefur leikið gríðarlega vel undanfarið.
_ _ _
INGIMAR INNSIGLAR SIGURINN
Ingimar Arnar Kristjánsson, framherjinn tvítugi sem hvorki lék í júní né júlí vegna meiðsla en er orðinn sprækur á ný, leysti Clement Bayiha af hólmi þegar 25 mínútur lifðu leiks. Aðeins mínútu síðar skaut hann í þverslá og yfir eftir gott samspil Þórsara en ekki leið á löngu þar til hann kom boltanum á „réttan“ stað. Þeir Sigfús Fannar lék vel saman þar til Ingimar komst í gott færi vinstra megin í vítateignum og skoraði með föstu skoti. Þá var allt allt vitlaust af fögnuði í Boganum, sigurinn nánast í höfn og þar með toppsætið.
_ _ _
NJARÐVÍKINGAR SLUPPU MEÐ SKREKKINN
Á þriðju mínútu af sex í uppbótartíma var Sigurjón Már Markússon, aftasti varnarmaður Njarðvíkur, heppinn að fjúka ekki af velli. Þeir háðu kapphlaup um boltann frá miðju vallarins, hann og Ingimar Arnar Kristjánsson, Þórsarinn var að sleppa í gegn þegar Sigurjón greip til þess örþrifaráðs að tefja för hans með lúmskum hætti eins og sjá má á myndunum og færið rann út í sandinn. Sigurjóni varð það til happs að dómararnir sáu ekki hvers kyns var.
_ _ _
BREIDDIN
Öflugur leikmannahópur Þórs var nefndur áður. Í gær voru bæði Ibrahima Balde og Juan Guardia Hermida í leikbanni, sá fyrrnefndi hefur verið algjör lykilmaður í sumar en það segir sína sögu að liðsfélagarnir söknuðu hans ekki gegn toppliðinu. Aron Ingi Magnússon var fremstur á miðjunni í stað Balde og Daninn Christian „Greko“ Jakobsen aftar á miðjunni þar sem Aron Ingi hefur leikið undanfarið með Einari Frey, þeim 16 ára ótrúlega þroskaða strák sem slegið hefur í gegn í sumar. Greko hefur reynst Þórsurum happafengur; hefur leikið bæði á hægri kanti og á miðjunni og leysir öll verkefni með sóma.
Hermida var heldur ekki saknað því Kristófer Kristjánsson hefur leyst stöðu hægri bakvarðar með miklum sóma þegar á þarf að halda, eftir að hann snéri til baka eftir meiðsli. Þá er vert að geta þess að Orri Sigurjónsson, sá reyndi og mikilvægi leikmaður, var fjarri vegna meiðsla, og fleiri sterkir leikmenn vermdu varamannabekkinn í gær eða voru ekki í hópnum.
_ _ _
SIGURGLEÐI
Mikil gleði braust út í Boganum eftir að flauta var til leiksloka. Leikmenn og stuðningsmenn Þórs sungu og trölluðu góða stund enda full ástæða til.
_ _ _
LOKASPRETTURINN
Þrjár umferðir eru eftir sem fyrr segir og níu stig í pottinum þannig að allt getur gerst. Þórsarar mæta Selfyssingum næst, á útivelli um næstu helgi og fá síðan Fjölnismenn í heimsókn. Þetta eru tvö neðstu lið deildarinnar en ekki hægt að bóka neitt fyrirfram þrátt fyrir það; þau róa lífróður og það er enginn hægðarleikur að mæta liðum í þeirri stöðu.
Svo skemmtilega vill til að í lokaumferðinni mætast Þróttur og Þór í Reykjavík. Þróttarar eiga eftir einnig að leika við Fjölnismenn á heimavelli, og sækja síðan HK-inga heim og misstígi hvorugt liðið sig í næstu tveimur umferðum er morgunljóst að spennan verður mikil á heimavelli Þróttar í Laugardalnum, laugardaginn 13. september!
Leikir sem efstu liðin eiga eftir:
- Þór 39 stig – Selfoss (úti), Fjölnir (heima), Þróttur (úti)
- Þróttur 38 stig – Fjölnir (ú), HK (ú), Þór (h)
- Njarðvík 37 stig – Leiknir (h), Keflavík (ú), Grindavík (h)
- HK 34 stig – Fylkir (h), Þróttur (h), Völsungur (ú)
- ÍR 34 stig – Keflavík (h), Grindavík (ú), Fylkir (h)
- Keflavík 31 stig – ÍR (ú), Njarðvík (h), Selfoss (ú)