Fara í efni
Íþróttir

Þór/KA vann FHL – tvær 15 ára skoruðu

Bríet Fjóla Bjarnadóttir í leik Þórs/KA og FHL í Boganum í ágúst. Hún skoraði eitt þriggja marka liðsins í sigrinum fyrir austan í gær. Mynd: Ármann Hinrik.

Þór/KA styrkti stöðu sína í 7. sæti Bestu deildarinnar, efsta sæti neðri hlutans, með 3:2 sigri gegn heimakonum í FHL í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði í gær. Á meðal markaskorara voru tvær stúlkur fæddar 2010, Bríet Fjóla Bjarnadóttir og Sigyn Elmarsdóttir, og var Sigyn að skora sitt fyrsta mark í meistaraflokki.

Bæði lið fengu nokkuð af tækifærum, en það var Bríet Fjóla Bjarnadóttir sem náði forystunni fyrir Þór/KA með eina marki fyrri hálfleiksins. Markið kom á 17. mínútu eftir að Amalía Árnadóttir hafði atast í varnarmönnum FHL og potað boltanum til Bríetar. Hún átti hnitmiðað skot yfir markvörð FHL.

Fjörugur stundarfjórðungur

Þrátt fyrir færi á báða bóga létu mörkin bíða eftir sér þar til á síðasta stundarfjórðungi leiksins. Emelía Ósk Krüger bætti við öðru marki fyrir Þór/KA á 78. mínútu eftir rispu Huldu Óskar Jónsdóttur á vinstri kantinum sem fór framhjá varnarmanni og sendi fyrir markið, boltinn endaði hjá Emelíu úti í teignum fyrir miðju marki og henni brást ekki bogalistin.

Heimakonur voru ekkert á því að gefast upp þrátt fyrir að lenda tveimur mörkum undir. Alexia Marin Czerwien skoraði með góðu skoti eftir undirbúning Bjargar Gunnlaugsdóttur. Markið kom á 89. mínútu þannig að enn áttu heimakonur tækifæri á að jafna leikinn í viðbótartíma. Að sama skapi höfðu leikmenn Þórs/KA tækifæri til að bæta við marki.

Strax eftir að Alexia skoraði markið komu tvær kornungar knattspyrnukonur inn af varamannabekknum hjá Þór/KA, báðar fæddar 2010. Sigyn Elmarsdóttir hafði átt eina innkomu áður, en Halldóra Ósk Gunnlaugsdóttir Briem átti þarna sína fyrstu innkomu í meistaraflokki. Það liðu síðan ekki nema 89 sekúndur þar til Sigyn hafði skorað þriðja mark Þór/KA. Hún fékk stungusendingu inn fyrir vörnina frá Henríettu Ágústsdóttur og kláraði það færi af öryggi. Sigyn hafði þá reyndar þegar átt eitt skot að marki sem var varið. Aftur liðu innan við tvær mínútur þar til næsta mark kom. Alexia skoraði þá aftur fyrir FHL, með skalla af stuttu færi eftir fyrirgjöf.

Nær komust heimakonur ekki því dómari leiksins flautaði til leiksloka um leið og leikmenn Þórs/KA byrjuðu aftur á miðju.

Leikskýrslan

Flugi aflýst, næstum árekstur við Goðafoss

Fjallað er um leik Þórs/KA í gær á vef félagsins, thorka.is, en þar má meðal annars finna ýmsan talnafróðleik um leikinn og leikmenn. Þar er einnig sagt frá ástæðu þess að leiknum var seinkað um 90 mínútur, en það mun hafa verið vegna frestunar á flugferðum vegna hvassviðris. Á leiðinni austur munaði svo minnstu að einn af liðsbílunum lenti í árekstri við Goðafoss. Allt fór þó vel að lokum og stigin þrjú skiluðu sér til Akureyrar.

Þór/KA er í efsta sæti neðri hlutans með 27 stig þegar einni umferð er ólokið. Fram er tveimur stigum á eftir, en Fram og Tindastóll skildu jöfn í hinum leik gærdagsins. Tindastóll og FHL bíður það hlutskipti að spila í næstefstu deild, Lengjudeildinni, á næsta tímabili. 

Þór/KA tekur á móti Fram í lokaleik sínum á tímabilinu í Boganum fimmtudaginn 9. október.