Fara í efni
Íþróttir

Þór/KA tekur á móti Þrótti – Frítt á leikinn

Karen María Sigurgeirsdóttir gerði eina mark Þórs/KA með glæsilegu langskoti þegar liðið tapaði fyrir Stjörnunni í Garðabæ í siðustu umferð. Mynd: Ármann Hinrik

Þór/KA tekur á móti Þrótti í dag kl. 18 í Boganum í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Leikurinn er mjög mikilvægur fyrir „Stelpurnar okkar“ og frítt er á leikinn í boði JYSK og Bílaleigu Akureyrar.

Tvær umferðir eru eftir þar til Bestu deildinni verður tvískipt í sex efri og fjögur neðri lið. Spennan magnast um miðbik deildarinnar, Þór/KA hefur sigið úr fjórða sætinu niður í það sjötta að undanförnu og þarf nauðsynlega á stigum að halda í lokaumferðunum til að halda sér í efri hlutanum.

  • Besta deild kvenna í knattspyrnu
    Boginn kl. 18
    Þór/KA - Þróttur

Næstu lið fyrir neðan Þór/KA eru Víkingur með 19 stig, Fram með 18 og Tindastóll með 17. Þór/KA á eftir leikinn á móti Þrótti í Boganum í kvöld og útileik gegn Íslandsmeisturum Breiðabliki í Kópavogi um aðra helgi. Að loknum 16 umferðum er Þór/KA með 21 stig í sjötta sætinu. Stjarnan fór upp í fimmta sætið með sigrinum á Þór/KA í síðustu umferð.

Þór/KA tapaði 4:1 fyrir Stjörnunni á útivelli í síðustu umferð og Þróttur, sem er í þriðja sæti deildarinnar, gerði óvænt jafntefli, 2:2, á heimavelli gegn botnliði FHL sem er löngu fallið úr deildinni.

Nánar um leikinn á vef Þórs/KA

Staðan í deildinni