Fara í efni
Íþróttir

Þór tapaði fyrir Fram í bragðdaufum leik

Arnór Þorri Þorsteinsson gerði fjögur mörk í kvöld. Hér er eitt þeirra um það bil að verða að veruleika. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

Þórsarar urðu að játa sig sigraða, 22:19, fyrir Fram á Íslandsmótinu í handbolta í kvöld í Íþróttahöllinni á Akureyri. Þeir eru því enn með aðeins tvö stig.

Fyrri hálfleikurinn var jafn en Þórsarar höfðu eins marks forskot í hálfleik, 10:9. Sóknarleikur liðanna var ekki upp á marga fiska, eins og tölurnar gefa til kynna, en varnarleikurinn var á hinn bóginn býsna góður lengst af.

Þórsarar komust tveimur mörkum yfir snemma í seinni hálfleik, 11:9, en eftir tíu mínútur voru Framarar komnir með forystu, 14:13, og eftir það komust heimamenn ekki yfir aftur. 

„Sókn­ar­leik­ur­inn var á pari miðað við leik­menn­ina okk­ar sem við erum að koma inn í þetta vegna meiðsla meðal ann­ars. Mér fannst þetta vera á pari fyrstu 45 mín­út­urn­ar. Svo dalaði þetta hjá okk­ur. Það eru sum­ir leik­menn bún­ir að ná tveim­ur æf­ing­um með okk­ur. Hinir eiga svo sem al­veg að vita hvað við erum að gera en að vera kom­inn allt í einu í fram­varðarsveit­ina í sókn­inni. Það er nýtt. Tví­tug­ir strák­ar, það tek­ur þá smá tíma að skólast inn í þetta. Við þurf­um bara að byggja áfram á okk­ar gild­um og reyna að blása aðeins í segl­in,“ sagði Þorvaldur Sigurðsson, annar þjálfara Þórsliðsins, í viðtali við mbl.is eftir leikinn.

Mörk Þórs í kvöld: Ihor Kopyshynskyi 5/3, Arnór Þorri Þorsteinsson 4, Þórður Tandri Ágústsson 3, Garðar Már Jónsson 3, Sigurður Kristófer Skjaldarson 2 og Aron Hólm Kristjánsson 2.

Jovan Kukobat varði 10 skot, þar af 2 víti.