Fara í efni
Íþróttir

Þór samdi við fjóra unga og Jóhann Helga

Guðni Sigþórsson, Jóhann Helgi Hannesson, Aðalgeir Axelsson, Steinar Logi Kárason, Elvar Baldvinsson…
Guðni Sigþórsson, Jóhann Helgi Hannesson, Aðalgeir Axelsson, Steinar Logi Kárason, Elvar Baldvinsson og Orri Freyr Hjaltalín, þjálfari. Ljósmynd: Páll Jóhannesson.

Knattspyrnudeild Þórs samdi í gær við fimm leikmenn, þar á meðal hinn þrautreynda Jóhann Helga Hannesson. Allir sömdu til tveggja ára. 

  • Guðni Sigþórsson – framherji sem verður 22 ára í mars. Hann hefur tekið þátt í 79 leikjum í meistaraflokki og gert níu mörk. Guðni lék fyrst með meistaraflokki Þórs 2016 og hefur gert síðan, nema hvað hann var lánaður til Magna á Grenivík 2019. 
  • Aðalgeir Axelsson – 22 ára framherji. Lék með Þór í yngri flokkunum og á að baki 11 leiki í meistaraflokki, sex með Þór og fimm með Tindastóli, þangað sem hann var lánaður sumarið 2019.
  • Elvar Baldvinsson – fjölhæfur leikmaður sem verður 24 ára á árinu. Völsungur að upplagi, á að baki liðlega 140 leiki með meistaraflokki Húsavíkurliðsins og hefur gert 31 mark. Elvar var með Þór í einum leik í fyrra.
  • Steinar Logi Kárason – miðvörður sem verður tvítugur á árinu. Uppalinn Þórsari sem á enn eftir að leika í meistaraflokki.
  • Jóhann Helgi Hannesson – þrítugur framherji; á 266 leiki að baki með meistaraflokki í deildar- og bikarkeppni, þar af 253 með Þór, og hefur gert 72 mörk.