Fara í efni
Íþróttir

Þór Íslandsmeistari í leiknum Counter Strike

Þórsliðið í Ljósleiðaradeildinni. Andri Þór Bjarnason, Davíð Matthíasson, Alfreð Leó Svansson, Pétur Örn Helgason, Antonio Kristófer Salvador og Hafþór Örn Pétursson. Mynd af heimasíðu Þórs.

Rafíþróttalið Þórs í Ljósleiðaradeildinni, Íslandsmótinu í Counter Strike, varð í gær Íslandsmeistari og er það í þriðja skipti sem karlalið félagsins í hópíþrótt í meistaraflokki vinnur Íslandsmeistaratitil í tæplega 109 ára sögu félagsins. Áður höfðu Þórsarar tvívegis orðið Íslandsmeistarar karla í innanhússfótbolta, 1993 og 2001. Greint er frá þessu á heimasíðu félagsins.

Á Þórsvefnum segir að lið félagsins hafi haft tveggja stiga forystu á toppi deildarinnar fyrir lokaumferðina sem spiluð var í gær á svokölluðum Ofurlaugardegi þar sem hver leikurinn á fætur öðrum er í beinni á Stöð 2 esport og Twitch-rás Rafíþróttasamtaka Íslands. Síðasta viðureignin var leikur Þórs gegn liði sem kallar sig Nocco Dusty og var hreinn úrslitaleikur deildarinnar.

Þar segir ennfremur:

Alfreð Leó Svansson var í viðtali í beinni frá Akureyri eftir að Þórsarar tryggðu sér sigurinn. Hann hafði varla frið til að ræða við þáttarstjórnendur því síminn þagnaði ekki á meðan á spjallinu stóð. Margir sem vildu óska honum og Þórsurum til hamingju. „Hvað á ég að gera núna?“ spurði hann þáttarstjórnendur og þeir svöruðu: „Þú ert búinn að vinna deildina.“

Alfreð Leó Svansson, maður leiksins að mati lýsenda í gær. Skjáskot úr útsendingu á Twitch-rás Rafíþróttasamtaka Íslands.

Einnig segir á Þórssíðunni:

Eðli málsins samkvæmt er rafíþróttalið ekki, eða þarf ekki að vera, allt statt á sama staðnum og því er ekki til nein eiginleg liðsmynd af Þórsurum. Einn liðsmaðurinn er til að mynda í Danmörku og annar í Reykjavík, en fjórir á Akureyri. Fimm spila leikinn hverju sinni, en yfirleitt eru allir sex í talsambandi á meðan leikurinn fer fram. Alfreð Leó Svansson – allee** – var valinn maður leiksins í gær af þeim sem lýstu leiknum, en þeir töluðu jafnframt um að Pétur Örn Helgason – peter – væri sá besti á landinu í þessum leik. Hafþór Örn Pétursson - detinate - gekk aftur í raðir Þórs eftir að hafa verið liðsmaður Dusty í eitt tímabil og spilaði raunar ekki nema síðustu leikina í þessu móti. Hann er sagður sá besti í deildinni að ákvaða hvernig best er að spila hverju sinni. 

Smellið hér til að sjá ítarlega umfjöllun á heimasíðu Þórs