Fara í efni
Íþróttir

Þór hefur skoðanir – ekki á móti uppbyggingu

Framkvæmdastjóri Íþróttafélagsins Þórs segir félagið fagna allri uppbyggingu í íþróttamálum en forsvarsmenn þess hafi að sjálfsögðu skoðun á því hver forgangsröðin eigi að vera. Það sé ódýr og lélegur málflutningur að félagið sé á móti uppbyggingu hjá öðrum þótt það sé ekki sammála því í hvaða röð sé framkvæmt.

Varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akureyri sagði í gær forsvarsmenn eins íþróttafélags í bænum hafa tekið mjög skýra afstöðu gegn uppbyggingu hjá öðrum, fyrir kosningar til bæjarstjórnar í vor. Þeir hafi m.a. látið hafa eftir sér opinberlega að atkvæði greitt einu tilteknu framboði væri atkvæði greitt gegn hagsmunum umrædds félags.

Ekki fór á milli mála að þar átti Sindri Kristjánsson við íþróttafélagið Þór og Samfylkinguna.

„Íþróttafélagið Þór fagnar allri uppbyggingu í íþróttamálum á Akureyri. Við höfum að sjálfsögðu skoðun á því hvernig röðin á að vera og hvar þörfin er mest út frá núverandi aðstöðu og iðkendafjölda,“ segir Reimar Helgason framkvæmdastjóri Þórs við Akureyri.net. „Það þýðir þó ekki að við séum á móti uppbyggingu hjá öðrum íþróttafélögum í bænum þó við viljum breyta í hvaða röð er framkvæmt – út frá rökum. Það er mjög ódýr og lélegur málflutningur að halda því fram að við séum á móti uppbyggingu hjá öðrum og flestir vita betur.“

Umræðan sé á vitrænum nótum

„Upphaf og endir á ágreiningi í þessum málaflokki er skýrsla um uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akureyri sem var ekki nógu vel unnin að okkar mati. Við mótmæltum henni frá fyrsta degi og ég held að mjög margir hér í bæ hafi séð að mjög margt undarlegt var í framsetningu og afgreiðslu á skýrslunni,“ segir Reimar.

„Ég hitti og funda oft með kjörnum fulltrúm hér í bæ og mjög oft nefna þau hvað það tekur á að lesa ómálefaleg skrif á Facebook um störf þeirra og stefnu. Einnig er oft nefnt að aðilar í íþróttafélögum bæjarins viðhaldi ríg á milli félaga með skrifum sínum og skrif Sindra í gær eru mjög gott dæmi um það,“ segir hann.

„Okkur í Þór brá í gær þegar við lásum það sem Sindri skrifaði og skildum ekki hverju það ætti að skila. Hér var farið á milli herbergja og gefið út að þessu yrði ekki deilt eða svarað, vegna þess að við reynum oftar en ekki að halda umræðunni á vitrænum nótum.“

Sé ekki glæpinn

„Ég sé ekki glæpinn hjá íþróttafélaginu Þór í aðdraganda kosninganna í vor. Við settum fram okkar hugmyndir og þarfir í uppbyggingu á félagssvæði okkar, funduðum með framboðunum og gáfum út hvaða framboð voru til í að vinna með okkur að þessu markmiði og hverjir ekki, sem mér finnst mjög eðlilegt. Svo að það komi fram þá var bent á þau framboð sem vildu halda sig við skýrsluna og þar var Samfylkingin ekki ein nefnd heldur til dæmis Vinstri græn og fleiri,“ segir framkvæmdastjóri Þórs.

„Ég hef alltaf haldið að þeir sem ná ekki markmiðum sínum í kosningum þurfi að líta sér nær og fara yfir hvort nálgun framboðsins á hinum og þessum málaflokkum hafi verið röng og hvort sú nálgun hafi ekki verið vilji kjósenda. Ég held að framboð séu ekki á réttri leið ef þau kenna einhverjum hóp eða félagasamtökum um útkomu í kosningum, hvað þá að tala niður til kjósenda.“