Fara í efni
Íþróttir

Þjálfari frá Vardar Skopje til Þórs!

Handknattleiksdeild Þórs hefur samið við Stevče Alušovski frá Norður-Makedóníu um að taka við þjálfun Þórsliðsins, skv. heimildum Akureyri.net.

Alušovski er 49 ára og síðasta vetur þjálfaði hann – ótrúlegt, en satt – stórlið Vardar frá Skopje, sem varð bæði landsmeistari og bikarmeistari í Norður-Makedóníu. Engu að síður var nýr þjálfari ráðinn fyrir næsta keppnistímabil, Veselin Vujovic, einn besti handboltamaður sögunnar og frægur þjálfari hin síðari ári.

Vert er að geta þess að Vardar – áður RK Vardar Skopje, nú RK Vardar 1961 – sigraði í Meistaradeild Evrópu 2017 og 2019 en lenti eftir það í miklum fjárhagsvandræðum, þurfti að losa sig við máttarstólpa úr leikmannahópnum og Alušovski var ráðinn þjálfari. 

Stevce Alusovski er margreyndur atvinnumaður í handbolta  og lék á sínum tíma m.a. með stórliði Vardar. Sem leikmaður vann hann 13 meistaratitla og 11 bikarmeistaratitla. Þá á hann að baki yfir 200 leiki með landsliði Makedóníu, eins og landið nefndist þá, og skoraði 900 mörk. Alušovski, sem lék í vinstra horni, var í liði Makedóníu sem varð í 11. sæti á HM 2009 og ári síðar þegar Makedónía varð í 5. sæti á EM.

Síðan 2017 hefur Alušovski þjálfað í heimalandinu, RK Pelister, RK Eurofarm Rabotnik og nú síðast Vardar, sem fyrr segir.

Lið Þórs féll úr efstu deild Íslandsmótsins, Olísdeildinni, í vor og leikur því í Grill 66-deildinni í vetur.