Fara í efni
Íþróttir

„Þetta verður alvöru reynsla fyrir liðið“

Hópurinn sem fór af stað frá KA-heimilinu síðdegis. Hluti leikmannahópsins komst ekki suður fyrr en í kvöld vegna vinnu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Íslands- og bikarmeistarar KA/Þórs í handbolta kvenna mæta spænsku bikarmeisturunum CB Elche tvisvar um næstu helgi, í 32-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar. Báðir leikirnir verða á Spáni.

Hluti leikmannahópsins og kvennaráðs hélt akandi suður yfir heiðar síðdegis en aðrir komust ekki fyrr en í kvöld vegna vinnu. Flogið verður til Alicante í bítið en borgin Elche er örstutt frá flugvellinum.

Öflugur andstæðingur

„Þetta er alvöru lið, Elche er spænskur bikarmeistari og er núna í sjöunda sæti spænsku úrvaldeildarinnar,“ sagði Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs, við Akureyri.net. „Liðið spilar mjög öflugan varnarleik og er með fjölhæfa sóknarleikmenn, spilar meðal annars sjö á móti sex,“ segir Andri. Markmanni er þá skipt af velli þegar lið heldur í sókn og sjö leikmenn spila á móti varnarmönnunum sex. „Við þurfum að vera tilbúin í alls konar útfærslur á handbolta og höfum búið okkur vel undir mjög skemmtilegt en krefjandi verkefni. Þetta verður alvöru reynsla fyrir liðið okkar.“

Ferðalagið til og frá Kósóvó um daginn, þegar Stelpurnar okkur lék þar í sömu keppni, var gríðarlega langt og erfitt en annað er upp á teningnum nú.

Förum full sjálfstrausts

„Kósóvóævintýrið var mjög dýrmæt reynsla en þessi ferð er auðvitað töluvert einfaldari enda fer nánast öll stjórnin með og konan mín ætlar meira að segja að koma með - og tveggja mánaða sonur okkar! Það er ótrúlega skemmtilegt að taka þátt í Evrópukeppni, við höfum spilað aftur og aftur við sömu liðin hér heima og það er áhugavert að fá að máta sig við góð lið erlendis. Að ég tali nú ekki um að komast í nokkurra gráðu heitara loftslag í fáeina daga!“

Andri Snær er jákvæður og bjartsýnn að eðlisfari. „Við erum öll mjög vel stemmd og förum full sjálfstrausts í þetta verkefni. Við ætlum að spila okkar bolta af krafti; handbolta eins og KA/Þór gerir best, og sjáum til hverju það skilar okkur.“ 

Tvær meiddar

KA/Þór og CB Elche leika á laugardag og sunnudag. Þjálfarinn kveðst afar spenntur, en segist hins vegar afar virkilega leiður yfir því að þrír leikmenn liðsins komast ekki með út. „Telma Lísa Elmarsdóttir meiddist illa á hné á æfingu í gær, Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir fékk höfuðhögg á æfingu á mánudaginn og Katrín Vilhjálmsdóttir er með lítið barn og ákvað á síðustu stundu að halda kyrru fyrir heima að þessu sinni.  Hún hefur ekki spilað í vetur en verið mjög dugleg að æfa og það styttist í hana.“