Fara í efni
Íþróttir

Dagur Gautason á leið á EM í Búdapest

Dagur Gautason fagnar marki með Andra Snæ Stefánssyni, fyrirliða KA, fyrir nokkrum árum. Til hægri e…
Dagur Gautason fagnar marki með Andra Snæ Stefánssyni, fyrirliða KA, fyrir nokkrum árum. Til hægri er Dagur í Stjörnubúningnum.

Dagur Gautason, KA-maðurinn snjalli sem leikur með Stjörnunni, verður kominn til Búdapest og í landsliðsbúninginn þegar Ísland mætir Svartfjallalandi á EM á morgun í síðasta leik milliriðilsins. HSÍ tilkynnti þetta rétt í þessu. Nokkrir landsliðsmenn hafa smitast af kórónuveirunni sem kunnugt er og nokkrir verið kallaðir til liðs við hópinn af þeim sökum, Dagur og Bjarni Ófeigur Valdimarsson, FH-ingur sem leikur með Skövde í Svíþjóð, bættust á þann lista í dag.

Dagur, sem leikur í vinstra horninu, hefur ekki leikið með A-landsliðinu fram að þessu. Hann er fæddur í mars árið 2000, verður því 22 ára innan skamms.

Akureyri.net birti á dögunum grein um þá staðreynd að uppalinn Akureyringur hafði verið með landsliðinu á öllum stórmótum á þessari öld þar til nú. Sú staðreynd á sem betur fer ekki lengur við!

Hér má lesa greinina - Án Akureyrings í fyrsta sinn á öldinni