Fara í efni
Íþróttir

Súlumenn handmokuðu sneiðinginn í Hlíðarfjalli

Halldór Arinbjarnarson kastar mæðinni eitt augabragð við moksturinn

Fjallahlaupið Súlur Vertical fer fram um helgina og ófá handtök eru nauðsynleg við undirbúning slíks stórviðburðar.

„Enn og aftur sannast að við eigum öflugustu sjálfboðaliðana. Góður hópur tók sig til og handmokaði sneiðinginn svokallaða sem er hluti af gönguleiðinni upp á Hlíðarfjall og partur af 55km leiðinni í Súlur Vertical,“ segir á Facebook síðu hlaupsins í dag, þar sem meðfylgjandi myndir eru birtar.

„Þessi kafli hefur verið ófær af snjó síðan í vetur, en margar hendur, skóflur (og keðjusög!) vinna létt verk og ætti sneiðingurinn ekki að verða mikill farartálmi um næstu helgi,“ segir á síðunni.

„Með þessu opnast líka ein af vinsælustu fjallgönguleiðum í kringum Akureyri fyrir allan almenning og við fögnum því, enda er eitt af markmiðum félagasamtakanna Súlur Vertical að efla útivist og hreyfingu á svæðinu.“

Brúin yfir Fremri-Lambá

Skemmst er að minnast þess að það var einmitt vaskur hópur sjálfboðaliða á vegum Súlur Vertical sem tók sig til um sama leyti í fyrra og smíðaði nýja brú yfir Fremri-Lambá á Glerárdal sem hefur verið einn helsti farartálmi á leiðinni inn að skálanum Lamba. Einungis nokkrar vikur eru síðan sjálfboðaliðar fóru frameftir og komu brúnni á réttan stað og festu niður eftir veturinn. Það er því ekki ofsögum sagt að undirbúningur sjálfboðaliða fyrir Súlur Vertical sé orðinn mikilvægur þáttur í því að opna helstu gönguleiðir og aðgengi að vinsælustu útivistarperlum í nágrenni bæjarins!

Sara Dögg Pétursdóttir að störfum í sneiðingnum.