Evrópuleikur KA – ofurhlaup um versló

Karlaliðin í fótboltanum eiga bæði leiki í vikunni fram undan, en þó á heldur ólíkum vettvangi. Þórsarar taka á móti Grindvíkingum á þriðjudag í 15. umferð Lengjudeildarinnar, en KA tekur á móti danska liðinu Silkeborg á fimmtudag í forkeppni Sambandsdeildar Evrópu.
Að vanda verða svo fjölmargir hlauparar á ferð um fjöll og stíga á föstudag og laugardag í fjallahlaupinu Súlur Vertical.
ÞRIÐJUDAGUR 29. JÚLÍ - fótbolti
Síðasti leikur karlaliðs Þórs í knattspyrnu fyrir verslunarmanna helgi er strax á morgun, þriðjudag þegar Grindvíkingar koma í heimsókn í Bogann.
- Lengjudeild karla í knattspyrnu, 15. umferð
Boginn kl. 18
Þór - Grindavík
Að loknum 14 umferðum af 22 er Þór í 5. sæti deildarinnar með 24 stig, færðist niður um eitt sæti með jafnteflinu í Keflavík í síðustu umferð. Grindavík er í 8. sæti með 14 stig, en liðið tapaði heimaleik gegn Þrótti í síðustu umferð. Fyrri leikur þessara liða varð að markaveislu, sjö marka leikur, 4-3 sigur Þórs á Stakkavíkurvelli í Grindavík undir lok maímánaðar.
FIMMTUDAGUR 31. JÚLÍ - fótbolti
Eftir góð úrslit á útivelli í fyrri viðureign sinni gegn Silkeborg í 2. umferð forkeppni Sambandsdeildar Evrópu er óhætt að fullyrða að spenna sé í loftinu fyrir seinni viðureign KA og danska liðsins og raunhæfur möguleiki á að KA komist áfram í 3. umferðina. Fyrri leiknum lauk með 1-1 jafntefli í Silkeborg síðastliðinn miðvikudag og á fimmtudag er komið að heimaleik KA.
Eins og áður hefur komið fram fékk KA leyfi til að taka á móti Silkeborg á Greifavellinum á Akureyri. Fram kom á vef félagsins þegar leyfið fékkst að UEFA hafi veitt KA sérstaka undanþágu til að leika á Greifavellinum í fyrstu tveimur umferðum forkeppni Sambandsdeildarinnar. KA sat svo reyndar yfir í fyrstu umferðinni og er að kljást við Silkeborg í 2. umferðinni.
- Forkeppni Sambandsdeildar Evrópu, 2. umferð, seinni leikur
Greifavöllur kl. 17
KA - Silkeborg
Sigurliðið í viðureign KA og Silkeborgar mætir annaðhvort Novi Pazar frá Serbíu eða Jagiellonia frá Póllandi í 3. umferð forkeppninnar.
FÖSTUDAGUR 1. ÁGÚST OG LAUGARDAGUR 2. ÁGÚST - fjallahlaupið Súlur Vertical
Fjallahlaupið Súlur Vertical nýtur vaxandi vinsælda með hverju ári. Hlaupið er haldið í 10. skipti núna um verslunarmannahelgina. Fram undan er meðal annars fjölmennasta 100 kílómetra hlaup landsins, en nú er í þriðja skipti boðið upp á 100 km vegalengdina og þar eru 49 hlauparar skráðir til leiks. Boðið er upp á fjórar vegalengdir, auk krakkahlaups í Kjarnaskógi.
- Krakkahlaup í Kjarnaskógi
Föstudagur 1. ágúst kl. 16. - Gyðjan - 100 km fjallahlaup
Hlaup með 3.580 metra hækkun. Hlaupið hefst við Goðafoss þaðan sem hlaupið er yfir Belgsárfjall og Vaðlaheiði til Akureyrar, upp á bæjarfjallið Súlur, inn á Glerárdal og að lokum niður í miðbæ Akureyrar.
Föstudagur 1. ágúst kl. 21, ræsing fyrri ráshóps við Goðafoss.
Laugardagur 2. ágúst kl. 02:00, ræsing seinni ráshóps við Goðafoss. - Tröllið - 43 km fjallahlaup
Hlaup með 1.870 metra hækkun þar sem hlaupið er upp á bæjarfjallið Súlur og þaðan eftir fjallshryggnum inn á Glerárdal. Krefjandi leið í stórbrotnu umhverfi.
Laugardagur 2. ágúst kl. 8, ræsing keppenda í Kjarnaskógi. - Súlur - 29 km fjallahlaup
Hlaup með 1.410 metra hækkun. Krefjandi hlaup en á flestra færi með góðum undirbúningi.
Laugardagur 2. ágúst kl. 10, ræsing keppenda í Kjarnaskógi. - Fálkinn - 19 km stígahlaup
Hlaup með 530 metra hækkun. Skemmtileg leið sem flestir ráða við.
Laugardagur 2. ágúst kl. 11:30-12, ræsing keppenda í Kjarnaskógi. - Endamark verður í göngugötunni í miðbæ Akureyrar og má búast við fyrstu keppendum í mark um hádegisbil og munu keppendur tínast í mark jafnt og þétt fram eftir degi.
- Verðlaunaafhending við endamark í miðbænum kl. 16.
- Endamarki lokað kl. 19.