Fara í efni
Íþróttir

Stórleikur Þórsara: Sigur eða sumarfrí!

Þórsarar fagna sigri fyrr í vetur. Þeir verða að vinna í kvöld til að lifa í voninni um að færast upp um deild. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar fá lið Harðar frá Ísafirði í heimsókn í kvöld í úrslitakeppni næst efstu deildar Íslandsmótsins í handbolta. Þetta er önnur viðureign liðanna, Hörður vann á heimavelli á þriðjudagskvöldið og Þórsarar verða að vinna í kvöld til að lifa í voninni um að færast upp í efstu deild. Tapi þeir í kvöld er snemmbúið sumarfrí framundan. 

„Nú reynir á Þórsfjölskylduna því ekkert annað en sigur kemur til greina ... Góð mæting og öflugur stuðningur úr stúkunni geta skipt sköpum í kvöld,“ segir á heimasíðu Þórs í dag og má til sanns vegar færa. Ástæða er til að hvetja alla sem vettlingi geta valdið til að mæta og hvetja Þórsara til dáða.

Sigra þarf í tveimur leikjum þannig ef Þórsarar sigra í kvöld mætast liðin í þriðja og síðasta sinn á Ísafirði á mánudaginn.

Sigurvegarinn úr þessari rimmu mætir Fjölni í úrslitaeinvígi um hvort liðið fylgir ÍR upp Olís deildina, efstu deild Íslandsmótsins.

Leikurinn í Höllinni í kvöld hefst klukkan 19.30.