Fara í efni
Íþróttir

Stelpurnar í KA/Þór taka á móti ÍBV í dag

Leikmenn KA/Þórs eftir öruggan sigur á Fram á dögunum. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.
Leikmenn KA/Þórs eftir öruggan sigur á Fram á dögunum. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

KA/Þór tekur á móti ÍBV í efstu deild kvenna í handbolta, Olís-deildinni, í KA-heimilinu í dag. Leikurinn hefst klukkan 14.00, áhorfendur eru ekki leyfðir en bein útsending verður á KA TV. 

Lið KA/Þórs er í efsta sæti deildarinnar ásamt Val og Fram; liðin þrjú eru með 10 stig að loknum sjö umferðum, og Stelpurnar okkar hafa einmitt mætt Reykjavíkurveldunum tveimur tvö í síðustu tveimur leikjum - gerðu jafntefli við Val að Hlíðarenda og unnu Fram hér heima.

 Í dag mætast einnig Haukar og Valur, þar sem reikna verður með Valssigri, og á morgun tekur HK á móti Fram þar sem nánast má bóka sigur Framara. Því er afar mikilvægt að Þór/KA haldi sínu striki og leggi ÍBV að velli því framundan er væntanlega skemmtilegt þriggja liða einvígi um deildarmeistaratitilinn.