Fara í efni
Íþróttir

Sóttu þrjú stig til Eyja með mikilli baráttu

Snædís Ósk Aðalsteinsdóttir, til hægri, og Saga Líf Sigurðardóttir í leiknum gegn ÍBV í Eyjum í dag. Ljósmynd: Sigfús Gunnar Guðmundsson.

Þór/KA gerði góða ferð til Vestmannaeyja í dag. Liðið lagði ÍBV að velli, 2:1, í fyrsta leik Íslandsmóts kvenna í fótbolta, Pepsi Max deildinni.

Eftir erfiðan fyrri hálfleik var Akureyrarliðið öflugt í þeim seinni; virkaði þá tilbúið í stríð, eins og Andri Hjörvar Albertsson, þjálfari liðsins, sagði í viðtali við Akureyri.net fyrr í dag, að yrði raunin í sumar.

Byrjunin gat varla verið verri fyrir Stelpurnar okkar; Delaney Baie Pridham gerði fyrsta mark mótsins fyrir ÍBV strax á áttundu mínútu, var óvölduð á markteignum og skallaði í netið eftir fyrirgjöf.

Eyjamenn voru ógnandi í fyrri hálfleik og nokkrum sinnum nálægt því að skora. Hinum megin fékk Coleen Kennedy, leikmaður Þórs/KA, mjög gott færi en skot hennar af stuttu færi var afleitt, og í lok hálfleiksins varði markvörður ÍBV mjög vel þegar Sandra Nabweteme þrumaði utan teigs. Hún kom inn á eftir hálftíma fyrir Coleen.

Mikil barátta einkenndi seinni hálfleikinn. Vitað mál er að Þór/KA getur leikið betur en í dag, en ekki er hægt að saka leikmennina um að leggja sig ekki fram! Þeir gáfust aldrei upp og það skilaði sér.

Hulda Ósk Jónsdóttir jafnaði metin á 66. mín. Fékk boltann utarlega í teignum, kom sér í færi með skemmtilegum tilþrifum og kórónaði það ferðalag með glæsilegu marki.

Það var svo Karen María Sigurgeirsdóttir sem tryggði Þór/KA stigin þrjú með marki á 81. mín. Náði boltanum af varnarmanni af miklu harðfylgi, lék inn í teiginn og sendi boltann undir markmanninn sem kom út á móti.

Spennandi verður að sjá þegar frumsýningarskrekkurinn verður farinn úr ungu stelpunum og þegar Arna Sif fyrirliði verður kominn heim frá Skotlandi. Þá verður áhugavert að sjá erlendu leikmennina meira; Colleen Kennedy sýndi ekki mikið en fór út af eftir hálftíma, hugsanlega meidd, en framherjinn Sandra Nabwetem, sem kom inná, sýndi hins vegar góða takta. Öflugur framherji.

  • Lið Þórs/KA (4-2-3-1) Harpa Jó­hanns­dótt­ir – Hulda Karen Ingvarsdóttir, Hulda Björg Hannesdóttir, Arna Kristinsdóttir, Jakobína Hjörvarsdóttir – Snæ­dís Ósk Aðal­steins­dótt­ir, Saga Líf Sig­urðardótt­ir – María Cat­har­ina Ólafs­dótt­ir Gros, Kar­en María Sig­ur­geirs­dótt­ir, Col­leen Kenn­e­dy (Sandra Nabweteme 31.) – Hulda Ósk Jóns­dótt­ir.
  • Varamenn: Sara Mjöll Jó­hanns­dótt­ir (m), Sandra Nabweteme , Mir­anda Smith, Iðunn Rán Gunn­ars­dótt­ir, Stein­gerður Snorra­dótt­ir.

Smelltu hér til að lesa viðtalið við Andra Albertsson í aðdraganda mótsins.

Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna