Fara í efni
Íþróttir

„Ungu stelpurnar hafa óbilandi metnað“

Andri Hjörvar Albertsson, þjálfari Þórs/KA. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Andri Hjörvar Albertsson, þjálfari Þórs/KA. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Stelpurnar í Þór/KA hefja keppni á Íslandsmótinu í fótbolta í dag, þegar Pepsi Max deildin hefst. Þær mæta ÍBV í Eyjum og hefst leikurinn klukkan 18.00.

Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði liðsins missir af fyrstu leikjunum þar sem hún verður með Glasgow City í Skotlandi til 9. maí, þrír erlendir leikmenn eru nýkomnir og liðið býsna ungt, en Andri Hjörvar Albertsson þjálfari lítur björtum augum á sumarið.

Margt jákvætt

„Undirbúningur hefur gengið vel. Leikmenn hafa æft af krafti og nýtt hverja einustu mínútu til að bæta sig,“ segir Andri Hjörvar við Akureyri.net. „Covid pásan gerði það að verkum að við misstum úr leiki í Lengjubikarnum, það er alltaf vont að missa leiki en við reyndum að gera gott úr stöðunni og leikmenn fóru einfaldlega í góða þolþjálfun á meðan þetta tímabil gekk yfir.“

Andri er ánægður með leik liðsins að undanförnu. „Leikir liðsins í vor hafa verið fínir. Við höfum verið að vinna í ákveðnum áherslum og leitast eftir svörum við ýmsum spurningum. Hver einasti leikur hefur gefið eitthvað gott af sér og við höfum verið að taka helling af jákvæðum punktum með okkur í hvert skipti fyrir næsta verkefni.

Staðan á liðinu og mannskapnum er virkilega góð. Það er rétt að nýir leikmenn hafa verið að koma frekar seint inn í hópinn en heimastelpurnar og fólkið í kringum félagið hafa tekið þeim opnum örmum og þær þurfa ekki langan tíma til að smella inn í okkar hugmyndafræði. Þar að auki höfum við þjálfararnir verið duglegir að tala við þær og setja þér inn í okkar leikkerfi í „fjarþjálfun“. Varðandi Örnu þá þekkir hún sitt hlutverk í liðinu frá a til ö og þarfnast engrar upprifjunar þegar hún kemur til baka til okkar.

Tækifæri fyrir aðrar

„Það er auðvitað ekki óskastaða að vera án fyrirliða síns en þetta er eitthvað sem við vissum fyrir löngu og höfum búið okkur undir. Leikmenn hafa svo sannarlega stigið upp í hennar fjarveru og í raun hefur þetta verið gott próf fyrir margar hingað til. Næstu leikir eru svo einfaldlega tækifæri til sanna sig enn frekar.

Arna hefur staðið sig mjög vel í Glasgow og fengið mikið lof fyrir. Það kom löng Covid pása stuttu eftir að hún fór út og þann tíma nýttu leikmenn vel til að vinna í þoli, þreki og styrk þannig að hún og hennar stöllur þarna eru í hörku formi. Svo núna er hún að fá helling af leikjum þannig að ég á von á leikmanni í toppformi til baka.“

Erlendu leikmennirnir eru allir 24 ára:

  • Colleen Kennedy er bandarískur miðjumaður eða framherji. Hún lék með bandarísku háskólaliði 2015 til 2018 en með Sandviken í Svíþjóð á síðasta ári.
  • Sandra Nabweteme er framherji frá Úganda, sem lék í bandarísku háskóladeildinni meðan hún stundaði nám vestra frá 2016 þar til á síðasta ári.
  • Miranda Smith er kanadískur miðjumaður. Hún lék einnig í bandarísku háskóladeildinni en síðast í finnsku deildinni; kom til TPS um mitt tímabil í fyrra þegar liðið hafði ekki unnið leik og þurfti að styrkja sig til að reyna að halda sér í deildinni.

Erlendu leikmennirnir hjá Þór/KA. Frá vinstri: Coleene Kennedy, Miranda Smith og Sandra Nabweteme. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

 

„Útlendingarnir líta vel út og það verður spennandi að sjá þá í búningi félagsins á vellinum í sumar,“ segir Andri um þremenninganna, og óhætt að taka undir að spennandi verður að fylgjast með þeim. Frábærir útlendingar hafa stundum leikið með liði Þórs/KA.

„Ungu stelpurnar eru að fullorðnast ansi hratt og fá að kynnast íþróttinni á hæsta stigi á öllum sviðum – en þær stíga vel inn í sín hlutverk og hafa óbilandi metnað til að læra og verða betri. Með hverju ári eykst ábyrgð þeirra í liðinu og um leið fá þær stærra hlutverk. Þar get ég nefnt Jakobínu [Hjörvarsdóttur] og Maríu [Catharinu Ólafsdóttur Gros] sem eru orðnar lykilleikmenn og eiga bjarta framtíð fyrir sér. Svo eru stelpur jafnvel yngri en þær að banka á dyrnar – stelpur sem hafa allt til ná árangri, en svo eru líka eldri stelpur í hópnum sem eru samt sem áður ansi ungar að mínu mati og þær hafa verið að spila reglulega með ÞórKA seinustu misseri.“

Alltaf tilbúin í stríð!

Þegar Andri er spurður við hverju stuðningsmenn megi búast í sumar; á hvað liðið muni leggja áherslu, svarar hann:

„Við viljum spila til sigurs í hverjum einasta leik og vera tilbúin í stríð á leikdegi, þannig að barátta og vinnusemi er eitthvað sem mun alltaf sjást frá okkur á vellinum. Við viljum svo blanda því saman við skipulagðan og agaðan varnarleik, ásamt sóknarleik þar sem allt liðið tekur þátt.“

Hann segir deildina verða erfiða í sumar og stig ekki gefin gegn neinu liði. „Það þurfa allir að hafa fyrir hlutunum, það er engin spurning. Sum liðin eru talin sigurstranglegri en önnur og hafa mannskap sem styður þannig spádóma, en þegar út á völl er komið þá er þetta einfaldlega 11 gegn 11 og allt getur gerst. Það er mikið í húfi í ár þar sem tvö efstu sætin gefa sæti í Evrópukeppni þannig að ég tel að lið muni selja sig dýrt til að ná þangað. Þetta er þróunin í kvennaboltanum á heimsvísu – kvennakeppni er að fá meiri athygli, meiri peninga og meiri virðingu. Við sem lið erum með ákveðið markmið fyrir sumarið og svo erum við sem félag með fleiri markmið og stefnum í átt að stórum draumum. Build a team – Build a dream!

Blóð, sviti og tár

Um fyrsta leikinn, gegn ÍBV í dag, segir Andri Hjörvar: „Fyrsti leikur verður blóð, sviti og tár. Hart barist og mikilvægt fyrir lið að byrja mótið af krafti. Það er alltaf erfitt að fara til Eyja og ná í góð úrslit og við þurfum að vera á okkar besta degi til þess. ÍBV hefur náð sér í góða leikmenn og þær líta vel út – þetta er hörkulið. Ekki er ólíklegt að einhver skjálfti eða fiðrildi fari um leikmenn í opnunarleik og leikurinn verði í samræmi við það, en það er bara partur af þessu, annars er þetta ekkert gaman.“

Smelltu hér til að sjá lista yfir alla leiki Þórs/KA í sumar.