Fara í efni
Íþróttir

Smíðuðu brú á mettíma fyrir Súlur Vertical

Þrátt fyrir nýjar samkomutakmarkanir fer fjallahlaupið Súlur Vertical fram á laugardaginn eins og fyrirhugað var og vinna skipuleggjendur nú hörðum höndum að því að laga keppnina að nýjum reglum. Skráðir þátttakendur eru 600.

Keppendur sem hlaupa 55 kílómetra þurfa yfir Fremri-Lambá á Glerárdal. Áin er helsti farartálminn á leið inn að skálanun Lamba, brúin yfir hana eyðilagðist í vetur en harðsnúinn flokkur úr UFA Eyrarskokki dró í gær efni í nýja brú inneftir og smíðaði hana á mettíma. Enginn ætti því að verða í vandræðum með að komast klakklaust yfir ána. 

Brúarsmiðir gærdagsins voru Gunnar Atli Fríðuson, Andri Teitsson, Halldór Arinbjarnarson, Birkir Baldvinsson og Þorbergur Ingi Jónsson.

Súlur Vertical var fyrst haldið 2016 að frumkvæði Þorbergs Inga Jónssonar ofurhlaupara. UFA Eyrarskokk tók við keflinu strax árið eftir, viðburðurinn hefur vaxið ár frá ári og að þessu sinni bætist ný og krefjandi hlaupaleið við – 55 km leiðin sem áður var nefnd, með 3.000 metra hækkun. Hlaupið er upp á bæjarfjöllin Súlur og Hlíðarfjall og alla leið niður á Ráshústorgið þar sem hlaupararnir koma í mark.

Aðrar vegalengdir eru óbreyttar. Annars vegar 28 km hlaup þar sem hlaupið er upp á Súlur og hins vegar 18 km hlaup.