Fara í efni
Íþróttir

Sjálfstæðismenn svara spurningum lesenda

Sjálfstæðisflokkurinn svarar nú spurningum lesenda Akureyri.net í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna. Öll framboðin fengu sendar spurningar og svör sjálfstæðismanna bárust í dag.

SPURT ER – Hver er afstaða til spítalabrekkunnar með tilliti til byggingarstefnu Akureyrarbæjar og umsagnar Minjastofnunar um málið?

SVAR – Fyrirhuguð uppbygging við Tónatröð er að mörgu leyti spennandi verkefni sem þarf að leysa í sátt við alla hagsmunaaðila. Sjálfstæðisflokkurinn telur það raunar mikilvægt, burtséð frá þessu verkefni, að þess verði almennt gætt að uppbygging á þéttingarreitum falli sem best að þeirri byggð sem fyrir er þannig að uppbyggingin fullnægi þeim markmiðum sem að er stefnt.

SPURT ER – Hver er afstaða til Glerárlaugar?

SVAR – Við viljum skoða vel nýtingarmöguleika á Glerárlaugar sem þjónar ákveðnum hópi fólks mjög vel. Það þarf einnig að bæta aðstöðuna þannig að hún verði enn meira aðlaðandi fyrir almenning.

SPURT ER – Hver er afstaða til reksturs og uppbyggingar í Hlíðarfjalli með tilliti til veltu þjónustuaðila í bænum fyrstu fjóra mánuði ársins sem eingöngu er tilkomin vegna skíðaaðstöðu í Hlíðarfjalli?

SVAR – Mikilvægt er að uppbygging í Hlíðarfjalli fari af stað sem fyrst með samvinnu við einkaaðila og ríki. Hlíðarfjall er eitt helsta aðdráttarafl í ferðaþjónustu á svæðinu og er því gríðarlega mikilvægt í framtíðar uppbyggingu ferðaþjónustu á Akureyri.

SPURT ER – Hver er afstaða til gjaldfrjáls strætós?

SVAR – Við erum hlynnt gjaldfrjálsum strætó.

SPURT ER – Hver er afstaða til hálkuvarna stofnæða að vetri?

SVAR – Hálkuvarnir eru svo sannarlega nauðsynlegar en við erum ekki hlynnt saltnotkun.

SPURT ER – Hver ef afstaða til rykhreinsunar gatna allt árið?

SVAR – Nauðsynlegt er að rykhreinsa götur allt árið.

SPURT ER – Hvaða skoðun hafa framboðin á nýja miðbæjarskipulaginu þar sem á að byggja á flestum bílastæðum miðbæjarins? Kemur til greina að draga úr byggingamagni? Er stefnt að því að byggt verði í „gamaldags“ stíl, svipað og við Austurbrú, sem væri betur í samræmi við td. Innbæinn og og byggðina þar norðan við, frekar en stóra steinkumbalda?

SVAR – Nýja miðbæjarskipulagið gerir ráð fyrir bílastæðum í bílakjöllurum. Fækka á stæðum á miðsvæði til að auka rými fyrir gangandi og hjólandi umferð. Verið er að fjölga stæðum í kringum miðbæinn t.d. er gert ráð fyrir um 40 stæðum til viðbótar við Átak. Heldur er ekki útilokað að byggja bílastæðahús í miðbænum fyrir allt að 250 bíla.

Hagstæðast er fyrir bæjarfélagið að hámarka nýtingu á miðbæjarsvæði og þar með hámarka tekjurnar. Ekki er stefnt að því í skipulagi að byggja í gamaldags stíl þar sem gert er ráð fyrir að húsin séu með sléttu þaki og í samræmi við nærliggjandi byggð.

SPURT ER –  Styðja framboðin áframhaldi saltaustur á götur Akureyrar?

SVAR – Sjálfstæðisflokkurinn styður hann ekki.

SPURT ER –  Hver er stefnan í fegrun bæjarins?

SVAR – Mikilvægt er að græn svæði séu lagfærð og snyrt svo þau séu alltaf til prýði.

SPURT ER – Allt of margar stórar aspir er víða inni í bænum. Má ekki fella/ grisja þessi skrímsli? Efst í Víðilundi eru aspir svo hávaxnar að íbúar á fimmtu hæð njóta ekki útsýnis. Kynnið ykkur góð áhrif af góðu/grænu útsýni og rannsóknir sem Páll Jakob Líndal sem er umhverfissálfræðingur hjá HÍ hefur gert, og sannar góð áhrif á heilsu fólks.

SVAR – Varðandi að fella/grisja aspir þá þurfum við ráðleggingar sérfræðinga í þeim efnum.

SPURT ER – Er ætlunin að standa við samþykkt um að lausaganga katta verði ekki heimil frá ársbyrjun 2025?

SVAR – Þeirri samþykkt hefur verið breytt. Þetta mál er viðkvæmt og hefur því miður fengið alltof mikla athygli í okkar frábæra bæjarfélagi. En nú er vonandi komin lausn sem að flestir verða sáttir með í framtíðinni.

SPURT ER – Er vilji til þess að draga til baka, a.m.k. að einhverju leyti, nýorðnar breytingar á bílastæðafyrirkomulagi í miðbæ Akureyrar, t.d. láta gamla klukkufyrirkomulagið gilda fyrir þá sem það vilja?

SVAR – Skoða þarf aðrar lausnir á gjaldheimtu fyrir þá einstaklinga sem núverandi greiðsluþjónustur henta ekki.

SPURT ER – Hvort verður á undan í byggingu, viðbygging Ráðhúss eða staður og uppbygging samgöngumiðstöðvar fyrir SVA, BSO, landsbyggðarstrætó, sem er illa staðsett í Strandgötu, og rútur?

(Smá sagnfræði: Það má fara 25 ár aftur í timann með umræðuna um samgöngumiðstöð, en ekkert er orðið að veruleika. Fyrir aldamót voru uppi hugmyndir að kaupa húsnæði það sem varð grunnurinn að byggingum Átaks. Var ætlunin að flytja þangað starfsemi Umferðarmiðsstöðvar, upplýsingarmiðstöðvar ferðamanna og BSO).

SVAR – Landsbyggðarstrætó hefur sótt um að nýta aðra staðsetningu við Hof. Viðbygging ráðhússins er á dagskrá á næstu árum til að koma starfsemi Akureyrar á sama stað og spara þar með fjármuni​​ til lengri tíma litið.

SPURT ER – Krossanesborgir er náttúruperla okkar Akureyringa. Það þarf að laga göngustíga og setja bekki að mínu mati. Hver er skoðun framboðanna á því?

SVAR – Vissulega má bæta stíga og aðstöðu í friðlandinu en huga verður vel að umhverfinu við allar framkvæmdir á svæðinu.

SPURT ER – Ég hjóla mikið, og mér finnst vanta hjólageymslu eða svæði sem er hægt geyma hjólið meðan maður er að erindast í miðbænum. Hvað segja framboðin um það?

SVAR – Vissulega má gera betur og gerir nýtt miðbæjarskipulag ráð fyrir slíkum hjóla geymslum.

SPURT ER – Enginn flokkanna er með einhverja stefnu sem þeir ætla að leiða okkur gagnvart, engin framtíðarsýn. Hvert á að stefna með bæinn? Þetta er allt hugmyndir gagnvart einhverjum málaflokkum. Það er rekstur. Það sem pólitíkin þarf að bjóða upp á er einhver hugmynd, einhver framtíðarsýn.

Því spyr ég: Hvað verður Akureyri eftir 25 ár og hvernig ætlið þið að leiða okkur þangað? Þetta er í rauninni bara beisikk pólitísk spurning því ef menn vita ekki svarið þá eiga þeir ekki að vera í pólitík.

SVAR – Akureyri að 25 árum liðnum verður 30 þúsund manna vistvæn svæðisborg þar sem umhverfi og skipulag verður til fyrirmyndar.

SPURT ER – Þegar maður talar við þá sem vita um stöðu bæjarsjóðs þá verða þeir alltaf grafalvarlegir, tala um að staðan sé grafalvarleg og hún verði stóra málið næsta kjörtímabil. En út á við eru þessi sömu aðilar að beina kastljósinu frá þessari umræðu.

Mín spurning til allra framboð er því þessi:

Hver er skuldastaða bæjarsjóðs og hvað finnst þeim um hana? Er hún í eðlilegu samhengi við rekstur, er hún ekkert til að hafa áhyggjur af eða er hún eitthvað sem taka þarf sérstaklega á og þá hvernig?

SVAR – Bæjarsjóður stendur hlutfallslega vel og skuldastaðan er góð miðað við önnur sveitarfélög á landinu en heildarskuldir sveitarfélagsins eru um 20 milljarðar kr. og skuldahlutfallið er 61% miðað við a- hluta. Stefna þarf að því að greiða niður skuldir bæjarins á næstu árum þar sem að vaxtagjöld eru um einn milljarður á ári og það mætti nýta þá fjármuni mun betur. Við teljum ekki þurfa að hafa sérstakar áhyggjur af skuldastöðu bæjarins, en vissulega mætti fara betur með fjármuni og greiða skuldir niður hraðar ef aðstæður leyfa.

SPURT ER – Hver er stefna framboðanna í skólamálum? (Væri gaman að fá annað en hið einfalda svar að þar sé unnið frábært starf og stefnt að því að svo verði áfram!)

SVAR – Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að skipulega verði unnið að því að styðja við og styrkja starfsemi grunn- og leikskóla með það að markmiði að þróa starfshætti sem taka mið af aukinni tæknivæðingu og áherslu á lestrarfærni, samskipti, skapandi og gagnrýna hugsun þannig að öll börn nái árangri. Áhersla verður lögð á gott starfsumhverfi fyrir nemendur og starfsfólk.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur ríka áherslu á að stoðþjónusta leik- og grunnskóla færist í auknum mæli inn í skólana sjálfa þannig að nemendur fái viðeigandi þjónustu sérfræðinga, s.s. talmeinafræðinga, sálfræðinga og þroskaþjálfa innan veggja skólans. Einnig er mikilvægt að kennarar hafi greiðan aðgang að stuðningi og ráðgjöf hvort heldur sem er kennsluráðgjafa eða annarra fagstétta.

Með þessu vill Sjálfstæðisflokkurinn leggja sitt af mörkum til þess að einfalda líf barna sem þurfa á stoðþjónustu að halda og fjölskyldna þeirra og tryggja að öll þjónusta standi þeim til boða á skólatíma.

SPURT ER – Hvernig væri að byggja einn mjög flottan fyrsta flokks Akureyrarvöll, fjölnota „stadium“ til framtíðar fyrir alla Akureyringa með öllu sem þarf, á sama stað og gamli er?

  • Frekar en að rembast í einhverjum þokkalegum aðstöðum fyrir 2 eða hugsanlega fleiri lið, þá að hugsa stórt og til framtíðar fyrir alla og með skynsemi í huga.
  • Öll efstu fótboltaliðin á Akureyri noti hann fyrir keppnisleiki, hvort sem liðin eru 1-2-3-4 eða hvað mörg.
  • Völlurinn væri fyrsta flokks og landsliðin okkar gætu spilað landsleiki þar.
  • Okkar Akureyrarlið gætu spilað Evrópuleiki og allt slíkt sem gæti þurft.
  • Stór bílakjallara undir öllu og yfirbyggð stúka, mögulega hægt að loka alveg yfir.

SVAR – Íþróttafélögin hafa lagt áherslu á að byggja upp aðstöðu á sínum svæðum. Sú uppbygging er hafin á KA svæðinu og Þórsarar eru með áform um uppbyggingu á sínu svæði á komandi árum.

SPURT ER – Ég sá skrifað að Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að lækka álögur á bæjarbúa og spyr: Væri ekki best að falla frá nýlögðum álögum á þá er leggja bifreiðum á bifreiðastæðum bæjarins? Þó ekki væri til annars en að forða okkur frá að greiða þjónustugjald til tölvufyrirtækja í Reykjavík (parka) í Svíþjóð (easy park.) .Las að þjónustugjöld væru 86 og 95 krónur til þessa aðila í hvert skipti sem einhver þarf að leggja í gjaldstæði. Þetta eru óþarfar álögur. Best að hafa stæðin frí eins og verið hefur í 17 ár ef ég man rétt.

SVAR – Sjálfstæðisflokkurinn mun leita leiða til þess að lækka álögur á bæjarbúa og horfa þá sérstaklega til gjalda sem hafa hækkað vegna utanaðkomandi þátta, svo sem fasteignagjalda og búa þannig um hnútana að Akureyrarbær standist samanburð við önnur sveitarfélög á landinu hvað þetta varðar.

Ekki stendur til að falla frá bifreiðastöðugjaldi á miðbæjarsvæði en frí stæði eru í jaðri miðbæjarins, enda er um mikilvægar tekjur að ræða meðal annars frá gestum bæjarins. Þegar gjaldtaka á bílastæðunum hófst var parka hugbúnaðurinn gjaldfrjáls. Í skoðun er að bæta við slíkum gjaldfrjálsum hugbúnaði frá öðrum þjónustuaðilum.

SPURT ER – Háspennulína, Blöndulína 3, er stórmál en ég er algjörlega mótfallinn því að það verði loftlína ofan við Giljahverfi og Móahverfi og að Rangárvöllum. Aðalskipulag Akureyrar gerir ráð fyrir að línan fari í jörðu frá sveitarfélagsmörkum og að Rangárvöllum. Fulltrúi Landsnets sagði í RÚV um daginn að ÞAÐ KÆMI EKKI TIL GREINA að leggja línuna í jörðu á þessum kafla.

Kjósendur verð að fá skýr svör frá öllum framboðum um þetta. Kemur til greina að mati framboðanna að falla frá því sem segir í aðalskipulagi bæjarins og gefa eftir þannig að Landsnet fái að hafa þetta loftlínu. Ég veit að það er stórmál að fá þetta rafmagn en líka STÓRMÁL að vita hvort komi til greina að bærinn eftir. Ég verð að vita þetta áður en ég greiði atkvæði.

SVAR – Sjálfstæðisflokkurinn telur afar mikilvægt að tryggja raforkuflutninga inn á svæðið og er Blöndulína 3 mikilvægur áfangi í að tryggja raforkuöryggi og skapa atvinnutækifæri á svæðinu. Sjálfstæðisflokkurinn mun beita sér fyrir því að Blöndulína 3 verði lögð í jörðu að bæjarmörkum enda hefur Alþingi samþykkt að þéttbýliskjarnar eigi rétt á að slík lína fari í jörðu. Nálægð við nýskipulagt Móahverfi og takmarkað byggingarland eru góð rök fyrir því að línan eigi að fara í jörðu.

SPURT ER – Hvað hyggjast framboðin gera til að styrkja stöðu hinsegin og kynsegin fólks á Akureyri? Vita hvernig þau ætla að tryggja fjölbreytileika á Akureyri og tryggja mannréttindi þessa hóps og möguleika til að njóta lífsins á Akureyri, í skólum, íþróttum, félagsstarfi og annars staðar í samfélaginu?

Ég sá í kynningarefni framboðanna í gær að aðeins Píratar snerta á málefnum þessa hóps sem er hratt stækkandi og skrýtið að akureysku framboðin skauti alveg framhjá þessu málefni.

SVAR – Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á aukna fræðslu bæði fyrir starfsfólk og nemendur í skólum og tómstundastarfi um málefni hinsegin og kynsegin fólks. Skoða þarf alla verkferla í tengslum við kynja- og jafnréttissjónarmið. Bjóða þarf upp á hinsegin félagsskap fyrir ungmenni á Akureyri. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á virkt samtal og samstarf við hagsmunaaðila og það að vera í fararbroddi þegar kemur að mannréttindum.

SPURT ER – Stjórn Samtaka – svæðisráðs foreldra nemenda í grunnskólum Akureyrar, óskar eftir að framboðin til sveitarstjórnarkosninga, leggi fram stefnu sína í málefnum grunnskólanna og það verði birt hjá ykkur.

SVAR – Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að skipulega verði unnið að því að styðja við og styrkja starfsemi grunn- og leikskóla með það að markmiði að þróa starfshætti sem taka mið af aukinni tæknivæðingu og áherslu á lestrarfærni, samskipti, skapandi og gagnrýna hugsun þannig að öll börn nái árangri. Áhersla verður lögð á gott starfsumhverfi fyrir nemendur og starfsfólk.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur ríka áherslu á að stoðþjónusta leik- og grunnskóla færist í auknum mæli inn í skólana sjálfa þannig að nemendur fái viðeigandi þjónustu sérfræðinga, s.s. talmeinafræðinga, sálfræðinga og þroskaþjálfa innan veggja skólans. Einnig er mikilvægt að kennarar hafi greiðan aðgang að stuðningi og ráðgjöf hvort heldur sem er kennsluráðgjafa eða annarra fagstétta.

Með þessu vill Sjálfstæðisflokkurinn leggja sitt af mörkum til þess að einfalda líf barna sem þurfa á stoðþjónustu að halda og fjölskyldna þeirra og tryggja að öll þjónusta standi þeim til boða á skólatíma.