Sigfús Fannar valinn besti leikmaður Þórs

Framherjinn Sigfús Fannar Gunnarsson var valinn besti leikmaður knattspyrnuliðs Þórs í sumar af þjálfarateymi liðsins. Þetta var tilkynnt á lokahófi meistaraflokks karla á laugardaginn, þar sem Þórsarar fögnuðu því að vera komnir upp í efstu deild, Bestu deildina, eftir 11 ár í þeirri næst efstu. Þórsliðið varð efst í Lengjudeildinni sem kunnugt er og Sigfús Fannar varð markahæsti maður deildarinnar með 15 mörk.
Sigurður Heiðar Höskuldsson þjálfari tilkynnti um valið, einnig að strákarnir í liðinu hefði kosið Ibrahime Balde leikmann leikmannanna, og að þjálfarnir hefði valið Atla Þór Sindrason þann efnilegasta. Hann lék feykilega vel, einkum fyrri hluta sumars. Margir áttu von á að Einar Freyr Halldórsson, sem sló rækilega í gegn á leiktíðinni, yrði fyrir valinu en Sigurður þjálfari minnti á að Einar Freyr hafði verið valinn efnilegastur í fyrra og þjálfararnir því ekki talið rétt að velja hann aftur. Atli Þór hefði tekið stórstígum framförum síðastliðinn vetur.
Í sumar var valinn KIA-leikmaður hvers leiks úr hópi Þórsara í samstarfi við Bílaleigu Akureyrar og Geir Kristinn Aðalsteinsson, fulltrúi bílaleigunnar, tilkynnti í hófinu að Sigfús Fannar hefði verið valinn KIA-leikmaður ársins. Fær hann m.a. að launum afnot af KIA bifreið í einn mánuð.
Geir Kristinn Aðalsteinsson, fulltrúi Bílaleigu Akureyrar, og Sigfús Fannar Gunnarsson, KIA-leikmaður ársins hjá Þór.