Fara í efni
Íþróttir

Seiglusigur Þórsara í Breiðholtinu

Þórsarar bregða á leik fyrir sigurinn í gær. Aftari röð frá vinstri: Daníel Andri Halldórsson þjálfari, Heiða Hlín Björnsdóttir fyrirliði, Eva Wium Elíasdóttir, Maddie Sutton, Rut Herner Konráðsdóttir og Katrín Eva Óladóttir. Fremri röð frá vinstri: Emma Karólína Snæbjarnardóttir, Karen Lind Helgadóttir, Hrefna Ottósdóttir og Vaka Bergrún Jónsdóttir. Mynd af heimasíðu Þórs: Páll Jóhannesson.

Kvennalið Þórs í körfubolta er áfram í efsta sæti 1. deildarinnar eftir sigur á sameiginlegu liði Aþenu, Leiknis og UMFK í Reykjavík í gær. Úrslitin urðu 71:65 eftir að Þór var tveimur stigum yfir í hálfleik, 34:32.

„Þórsurum gekk brösuglega í upphafi, fyrir utan það að skora fyrstu körfu leiksins,“ segir í ítarlegri umfjöllun á heimasíðu Þórs.

„Þrátt fyrir að hiksta reglulega í leiknum og tapa boltanum alltof oft létu Þórsstelpurnar forystuna aldrei af hendi aftur þó hún yrði óþægilega lítil öðru hverju. Munurinn varð minnstur eitt stig í nokkur skipti og mestur níu stig þegar þriðja leikhluta lauk. Það sem hins vegar hrjáði Þórsliðið hvað mest í leiknum og kom í veg fyrir að stelpurnar næðu að sigla sigrinum örugglega í höfn misheppnaðar sendingar og tapaðir boltar, en liðið tapaði boltanum samtals 24 sinnum á móti 14 töpuðum boltum heimaliðsins. Fráköstin voru hins vegar Þórsliðsins, samtals 50 á móti 37 fráköstum heimaliðsins. Fjórði leikhluti varð spennandi og náði heimaliðið tvisvar að minnka muninn í þrjú stig, en baráttan í Þórsliðinu fleytti því áfram á lokakaflanum og niðurstaðan varð fimm stiga sigur.“

Þór hefur nú 34 stig eftir 21 leik, Stjarnan er með 32 eftir 19 leiki og Snæfell í þriðja sæti með 30 stig að loknum 21 leik. Þessi þrjú lið eru lang efst en KR og Hamar/Þór eiga í harðri baráttu um fjórða sætið.

Fjögur efstu liðiðn fara í úrslitakeppni og berjast um aðeins eitt laust sæti í efstu deild.

Leikir sem Þór, Stjarnan og Snæfell eiga eftir:

  • Þór: Stjarnan (ú), KR (h), Breiðablik b (ú)
  • Stjarnan: Breiðablik b (ú), Þór (h), Aþena/Leiknir/UMFK (h), Tindastóll (ú), Snæfell (h)
  • Snæfell: Hamar/Þór (h), Aþena/Leiknir/UMFK (ú), Stjarnan (ú)

Smellið hér til að sjá nánari umfjöllun og alla tölfræði.