Fara í efni
Íþróttir

Sakna satt að segja vetrarkuldans!

Aron Einar Gunnarsson og Lionel Messi, fyrirliði Argentínu, í fyrst leik Íslands í lokakeppni HM, 16…
Aron Einar Gunnarsson og Lionel Messi, fyrirliði Argentínu, í fyrst leik Íslands í lokakeppni HM, 16. júní 2018 í Moskvu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Skemmtilegt viðtal birtist í síðustu viku við Aron Einar Gunnarson, fyrirliða landsliðs Íslands í knattspyrnu, á heimasíðu FIFA, alþjóða knattspyrnusambandsins. Þar er farið um víðan völl, rætt um hann sjálfan, ferilinn, fótboltann í Katar og húðflúrin öll! Einnig um þátttöku Íslands á HM í Rússlandi, um vonbrigðin að komast ekki í úrslitakeppni EM næsta sumar og horft fram á veginn. 

Blaðamaður fifa.com spyr meðal annars: Aron, í hreinskilni sagt, saknarðu veðursins í Bretlandi eða vetursins á Íslandi?

Aron Einar svarar: „Já, ég geri það í sannleika sagt! Sem Íslendingi er mér alls ekki illa við kulda. En það er mjög notalegt hérna núna – um 20 gráðu hiti – fullkomið veður í rauninni, og miklu betra en þegar ég sneri hingað aftur í ágúst. Það er heitasti tími ársins og ástandið yfirþyrmandi. Hitinn var óbærilegur á köflum. Við æfðum á kvöldin og meira að segja þá var rakinn hrikalegur,“ segir Aron, sem var heima í Katar þegar viðtalið fór fram.

Blaðamaður fifa.com hefur bersýnilega mikinn áhuga á húðflúri Arons og spyr sérstaklega út í það sem þekur allt bakið en þar er að finna skjaldarmerki Íslands; fána lýðveldisins og landvættina fjóra.

„Það skiptir mig miklu máli að spila fyrir hönd Íslands. Það er sérstakt að kom fram fyrir hönd fámennrar þjóðar; menn eru meðvitaðir um að þeir eru í hlutverki lítilmagnans sem ætíð þarf að berjast af meiri krafti en aðrir. Varðandi húðflúrið; eftir Evrópukeppnina [í Frakklandi 2016] langaði mig til að gera eitthvað sérstakt, eitthvað sem skipti virkilegu máli. Það var Íslendingur sem húðflúraði mig, hann kom fjórum sinnum til Cardiff og vann að verkefninu tvo daga í hvert skipti. Einu sinni var hann að stanslaust í sjö klukkutíma,“ segir Aron.

Hann segir frá viðbrögðum húðflúrarans þegar landsliðsfyririrliðinn sagði honum frá hugmyndinni: Ertu alveg viss?

„Hann sagði mér að hluti litanna í fánanum yrðu á hryggnum miðjum og það yrði mjög sárt. Ég get staðfest að þar sagði hann ekki ósatt! En ég mig langaði virkilega að gera þetta og sé alls ekki eftir neinu.“

Viðtalið á heimasíðu FIFA

Myndskeið frá leik Íslands og Argentínu á HM í Rússlandi