Fara í efni
Íþróttir

Óvænt tap KA í síðasta heimaleik ársins

Otto Varik, markahæsti maður KA í dag, svífur inn úr horninu. Vilius Rasimas, sem þarna er til varnar, var frábær í dag; varði 17 skot, þar af fjögur víti. Ljósmynd: Egill Bjarni Friðjónsson

Það urðu heldur betur óvænt úrslit í KA heimilinu í dag þegar KA menn töpuðu á móti botnliði Selfoss í Olísdeild karla, efstu deild Íslandsmótsins í handbolta, 28-30. Selfoss hafði einungis unnið tvo leiki á tímabilinu fyrir leikinn í dag en KA menn voru í 7. sæti deildarinnar með 10 stig og hefðu með sigri getað jafnað lið Hauka að stigum en þeir sitja í 6. sæti.

Fyrri hálfleikur leiksins var nokkuð jafn en Selfyssingar leiddu þó með þremur mörkum þegar flautað var til hálfleiks, 12-15. KA byrjaði seinni hálfleik af miklum krafti og tókst að jafna en það dugði því miður ekki til þar sem Selfyssingar náðu fljótt aftur forystunni og héldu henni til leiksloka. Ott Varik var lang markahæsti leikmaður KA með 9 mörk en Selfyssingurinn Einar Sverrisson var markahæsti leikmaður vallarins með 11 mörk.

Þetta var síðasti heimaleikur KA manna á árinu, en þeir eiga þó eftir einn útileik, gegn Fram næsta laugardag. Þá tekur við langt jólafrí í deildinni vegna EM karla í handbolta sem fer fram í janúar í Þýskalandi, en næsti heimaleikur KA manna er ekki fyrr en 1. febrúar.

Mörk KA: Ott Varik 9 (4 víti), Skarphéðinn Ívar Einarsson 4, Einar Rafn Eiðsson 3, Dagur Árni Heimisson 3, Einar Birgir Stefánsson 3, Jóhann Geir Sævarsson 2, Hugi Elmarsson 1, Arnór Ísak Haddsson 1, Ólafur Gústafsson 1, Jens Bragi Bergþórsson 1.

Varin skot: Nicolai Horntvedt Kristensen 5 (27,8%), Bruno Bernat 4 (19%).

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina