Fara í efni
Íþróttir

Óþarflega „samrýmdir“ handboltafrændur

Geir Guðmundsson og Guðmundur Hólmar Helgason haustið 2011, á æfingu hjá liði Akureyrar. Ljósmynd: S…
Geir Guðmundsson og Guðmundur Hólmar Helgason haustið 2011, á æfingu hjá liði Akureyrar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Handboltafrændurnir Geir Guðmundsson, Þórsarinn sem leikur með Haukum, og KA-maðurinn Guðmundur Hólmar Helgason, leikmaður Selfoss, eru samrýmdir þegar kemur að handboltanum; hafa bæði verið samherjar á nokkrum stöðum, og það sem verra er, þegar annar meiðist gerir hinn það gjarnan líka! Talið er næsta víst að Guðmundur sé nú með slitna hásin og Geir fékk heilahristing í leik á dögunum auk þess sem brotnaði úr tönn. Guðmundur fer í aðgerð á föstudaginn en Geir tekur það að mestu rólega heima.

Frændurnir léku fyrsta saman með liði Akureyrar, sem var og hét, með Val í Reykjavík og Cesson Rennes í Frakklandi. Geir var þar í fjögur ár, Guðmundur í tvö og svo tvö ár í Austurríki og báðir fluttu þeir heim til Íslands síðasta sumar.

Pollýönnuleikur

„Sennilega er ekki hægt að lýsa því hvað þetta er ömurlegt, en ég reyni samt að hugsa til þess, þegar mér líður sem verst, að margir aðrir glími við miklu meiri erfiðleika en ég og taki því með miklu æðruleysi. Þetta er auðvitað alvöru kinnhestur, ég hef verið mjög sár og svekktur síðustu daga, en skilaboð frá mörgum fyrri liðsfélögum og mótherjum, vinum og fjölskyldu, hafa hjálpað mér mikið. Svo þegar komin er dagsetning á aðgerðina getur maður farið að horfa fram á veginn,“ segir Guðmundur við Akureyri.net.

Eftir aðgerð verður Guðmundur tvær vikur í gifsi og á hækjum og síðan í göngustígvéli í nokkrar vikur, „þar sem fóturinn er skorðaður eins og ég sé á hælaháum skó, og svo verður einn kubbur tekinn undan hælnum vikulega. Þannig lengist í hásininni smám saman.“

Guðmundur segir gjarnan miðað við að sex til átta mánuðum eftir aðgerð geti menn farið að beita sér af alvöru í hlaupum og hoppum. „Maður verður að vera dálítil Pollýanna, eins og mamma segir; hugsa um að nú verði meiri tími fyrir námið, ég verði meira heima um kvöldmatarleytið og geti borðað með fjölskyldunni. Maður verður að taka það góða út fyrir sviga.“

Guðmundur er í meistaranámi í lögfræði og Herdís María Sigurðardóttir, eiginkona hans, var komin með vinnu hér heima; hafði unnið að utan síðustu tvö árin.

Ótrúleg meiðslasaga

Frændurnir héldu til Frakklands 2016, léku eins og til stóð um haustið og Guðmundur fór með landsliðinu á HM 2017, sem fram fór í Frakklandi. „Það var svo fljótlega eftir að ég kom af HM að ég sleit tvö liðbönd í vinstri ökkla, fór í aðgerð í Frakklandi og þar með var tímabilið búið hjá mér. Þegar ég var að koma til baka um haustið greindist ég svo með brjósklos í bakinu. Konan mín gleymir aldrei að það var 9. október – það er nefnilega afmælisdagurinn hennar!“ Brjósklosið var talið frekar alvarlegt, en Guðmundur fór þó ekki í aðgerð heldur var látinn hvíla sig vel og hóf síðan sjúkraþjálfun eftir áramótin.

Sumarið 2018 samdi Guðmundur við austurríska liðið SG Handball West Wien og gekk mjög vel um veturinn. Það var svo haustið 2019, snemma seinni leiktíð hans í Vín, sem brjósk í vinstra hné skaddaðist og gerði það að verkum að Guðmundur lék ekki meira með liðinu; fór í aðgerð ytra og var enn í endurhæfingu þegar keppnistímabilinu var aflýst snemma árs í fyrra vegna Covid-19.

„Það er því eitt og annað sem maður hefur lent í,“ segir Guðmundur og óhætt er að taka undir það. Hann grínast með að eiginkonan hafi sagt nóg komið; nú flyttu þeim heim!

Reif vöðva og sleit liðband

Geir Guðmundsson fékk höfuðhögg í leik á dögunum sem fyrr segir og glímir enn við afleiðingar heilahristings. „Mér líður betur með hverjum deginum sem líður. Ég er farinn að líkjast sjálfur mér,“ segir hann í samtali við Akureyri.net. „Ég er farinn að hjóla og gera léttar æfingar, skokka rólega og dripla bolta, en æfi ekkert með liðinu. Ég fylgi bara nákvæmlega því sem sjúkraþjálfarinn leyfir mér að gera.“

Geir fylgdist með leik Hauka og Gróttu á Ásvöllum á mánudaginn og segir það hafa verið afar erfitt. „Hávaðinn í húsinu og mikil birta fóru mjög illa í mig. Í hálfleik hitti ég sjúkraþjálfarann sem nuddaði á mér hálsinn og hnykkti mig, og ég fann hvernig hausverkurinn hvarf nánast alveg. En eftir að ég fór aftur inn í sal og seinni hálfleikurin hófst koma hann strax aftur ...“

Geir flutti heim í sumar eins og Guðmundur frændi hans, eins og áður kom fram. Nemur viðskiptafræði og er alsæll. Hafði verið í fjarnámi en vildi klára námið hér heima. „Mig langaði líka að búa aftur með kærustunni eftir að vera einn úti öll fjögur árin. Hún er að læra sjúkraþjálfun og verður því að vera hér, en kom reyndar eins mikið út til mín og hægt var.“

Hann segist reyndar kunna vel við sig einn. „Ég spjaraði mig ábyggilega betur einn en margir hefðu gert!“ segir hann og hlær. Viðurkennir þá að hann hafi verið orðinn þreyttur á dvölinni ytra, sérstaklega hafi honum þótt erfitt eftir að Guðmundur og Herdís fluttu til Austurríkis.

Snögg yfirferð yfir meiðsli Geirs í útlandinu hljómar svo: „ég reif kálfavöðvann í tætlur og var töluvert lengi frá og svo sleit ég liðbönd í ökkla; það voru nákvæmlega sömu meiðsli og Gummi hafði lent í árið áður.“

Fékk blóðtappa 17 ára

Geir skrifaði reyndar aldeilis ekki fyrsta kafla sjúkrasögunnar eftir að hann gerðist atvinnumaður. Hann greindist nefnilega með blóðtappa á byrjunarstigi í hægri handlegg aðeins 17 ára. „Fyrst ég þurfti að ganga í gegnum það helvíti finnst mér ég hefði átt að sleppa við eitthvað af hinu!“ segir hann og hlær.

Það var á aðfangadag 2010 að hann fann fyrst fyrir einkennilegum verk í hendinni en hugsaði ekki meira um það. HM 20 ára og yngri var framundan í Serbíu og hugurinn var við handboltann; Geir lék með liði Akureyrar á milli jóla og nýárs og hélt svo suður á æfingar með landsliðinu fyrir Serbíuförina. „Þjálfarnir tóku eftir því á æfingu að ég gat ekki lyft hendinni þegar ég var í vörn og spurðu hver andskotinn væri að mér. Hefðu þeir ekki nefnt þetta ég hefði í heimsku minni ábyggilega bara harkað af mér. En ég var sendur á læknavaktina og þaðan upp á spítala. Gisti þar um nóttina, hugsaði að þetta væri bara einhver sýking, ég fengi og lyf og þar með væri málið búið.“

Læknir tilkynnti Geir morguninn eftir að hann væri með blóðtappa og mætti ekki spila handbolta á næstunni. „Ég sagðist því miður ekki geta tekið mér pásu því ég væri að fara á HM í Serbíu daginn eftir!“

Handboltamanninum unga var þá bent á það með óyggjandi hætti hver staðan væri. „Læknirinn sagði mér að ef ég færi í flugvél með þennan blóðtappa myndi hann mjög líklega fara af stað, færi kannski í lungu eða heila sem hefði mjög alvarlegar afleiðingar og gæti jafnvel drepið mig.“

Þar með var málið útrætt. Við tóku frekari rannsóknir. „Það þótti ótrúlegt að ég fengi þetta, ungur maður í mjög góðu formi. Ég man að einn læknirinn spurði mig hvort ég væri að nota stera, en ég spurði hana á móti hvort hún væri orðin rugluð! Læknarnir trúðu mér tæplega og ég var þess vegna sendur í próf sem sýndi auðvitað fram á að ég var að segja satt.“

Niðurstaðan var því einfaldlega sú að Geir væri ótrúlega óheppinn. 

Vonandi er óheppnin að baki hjá þeim frændum. Megi báðum ganga sem allra best, innan vallar sem utan, eftir að hásinin kemst í lag og höfuðverkurinn hverfur.

  • Neðri myndin: Frændurnir í búningi Cessen Rennes í Frakklandi.