Fara í efni
Íþróttir

Óskar Jónasson varð Íslandsmeistari

Óskar Jónasson eftir að hann varð Íslandsmeistari í dag.

Þórsarinn Óskar Jónasson varð Íslandsmeistari í 301 í pílukasti í dag. FitnessSport Íslandsmótið fór þá fram á Bullseye við Snorrabraut í Reykjavík.

Í karlaflokki var keppt í átta riðlum, fjórir frá píludeild Þórs komust upp úr riðlakeppninni og Óskar gerði sér lítið fyrir og fór alla leið. Í úrslitaleiknum mætti hann Birni Andra Ingólfssyni, sem spilar fyrir píludeild Magna á Grenivík, og sigraði 7:5.

Í kvennaflokki var keppt í tveimur riðlum, Hrefna Sævarsdóttir frá píludeild Þórs komast alla leið í undanúrslit en tapaði þar 6:4.

Þegar keppt er í því sem kallast 301 þarf leikmaður að byrja á því að hitta í einhvern af tvöföldu reitunum áður en hann má byrja að vinna sig niður úr 301 og niður í 0.

Til að ljúka leiknum þarf hann svo aftur að hitta í tvöfalda reitinn í lokin. Ef leikmaður á til dæmis 40 eftir þá þarf hann að hitta tvöfaldan 20 til að sigra hvern legg, en til að vinna hvern leik þarf að sigra í ákveðnum fjölda leggja. Í úrslita leiknum í dag þurfti að vinna 7 leggi til að landa titlinum.

  • Á Íslandi er keppt í 301, þar sem keppni fer fram eins og áður er lýst.
  • Einnig er keppt í 501 þar sem keppandi byrjar strax á því að vinna sig úr 501 niður í 0, þarf sem sagt ekki að hitta fyrst í tvöfaldan reit en þarf hins vegar að enda á því.
  • Þá er keppt í því sem kallast krikkett en sá leikur gengur út á að hitta þrisvar sinnum í 20, 19, 18, 17, 16 og 15, og auk þess þrisvar sinnum í miðjuna.

Mikill uppgangur hefur verið í pílukasti á Akureyri undanfarin ár, iðkendum fjölgað mjög og framfarirnar verið miklar.