Fara í efni
Íþróttir

N1 veisla KA-manna hafin – MYNDIR

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Einn umfangsmesti íþróttaviðburður landsins ár hvert, N1 mót KA í knattspyrnu fyrir stráka í 5. flokki, hófst í hádeginu á KA-svæði. Keppt verður frá morgni til kvölds næstu daga en keppni lýkur á laugardag.

Mótið í ár, það 36. í röðinni, er eitt það stærsta frá upphafi; alls taka um 200 lið þátt og eru um 2.000 þátttakendur skráðir til leiks. 

„Það er mikil tilhlökkun hjá okkur í KA að taka á móti efnilegum knattspyrnustrákum og aðstandendum þeirra og má búast við miklu lífi og fjöri hér á Akureyri á næstu dögum,“ er haft eftir Sævari Péturssyni, framkvæmdastjóra KA, í tilkynningu frá N1 og KA. „Síðustu tvö mót hafa einkennst af hinum ýmsu takmörkunum og reglum og fögnum við því að þátttakendur geti sleppt af sér beislinu í ár, takmarkalaust. Það verður því gaman að fylgjast með um tvö þúsund spenntum fótboltaköppum í keppnisham þar sem leikgleðin og dugnaðurinn ráða ríkjum.“

Grasrótin mikilvæg

Í tilkynningunni segir að N1 hafi um árabil verið einn helsti styrktaraðili grasrótarstarf í knattspyrnu „sem er mikilvægur grunnur fyrir framgang beggja kynja í íþróttinni. Nýlega skrifuðu KSÍ og N1 undir samning um áframhaldandi samstarf sem m.a. hlúir að starfsemi Hæfileikamótunar N1 og KSÍ en markmið verkefnisins er meðal annars að fylgjast með yngri leikmönnum af báðum kynjum og undirbúa fyrir hefðbundnar landsliðsæfingar með bæði fræðslu og æfingum, auk þess að koma til móts við minni félög á landsbyggðinni til að gefa sem flestum leikmönnum tækifæri til að sýna sig og sanna. Lúðvík Gunnarsson, þjálfari og umsjónaraðili Hæfileikamótunar N1 og KSÍ, mun mæta á N1 mótið í ár og fylgjast þar með þátttakendum sem eiga framtíðina fyrir sér í knattspyrnu.“

Einn af hápunktunum

„N1 mótið hefur lengi verið einn af hápunktum sumarsins hjá ungum knattspyrnuköppum og á mótinu hafa margir verðandi atvinnumenn tekið sín fyrstu skref í átt að landsliðsferli. Mótið hefur því alltaf verið órjúfanlegur hluti af N1-hjartanu og hlökkum við til að fylgjast með fótboltasnillingum spreyta sig á skemmtilegasta móti ársins. KA á einnig heiður skilinn fyrir frábæra umgjörð og framkvæmd á mótinu ár hvert og sést hér vel að gott og gjöfult samstarf getur skipt sköpum,“ segir Þyrí Dröfn Konráðsdóttir, forstöðumaður markaðsmála hjá N1 í áðurnefndri tilkynningu.