Fara í efni
Íþróttir

Mjög sannfærandi sigur KA á liði HK

Mjög sannfærandi sigur KA á liði HK

KA-menn léku mjög vel og unnu sannfærandi sigur á HK, 3:0, í Mizunodeild karla í blaki í KA-heimilinu í kvöld.

KA vann fyrstu hrinuna 25:19, þá næstu 25:20 og loks þá þriðju 25:18. KA og HK hafa barist um helstu titlana síðustu ár en Hamarsmenn úr Hveragerði hafa verið bestir það sem af er í vetur og ljóst að liðið sem tapaði í kvöld ætti enga möguleika á deildarmeistaratitlinum.

Hamar er í efsta sæti með 30 stig, hefur unnið alla 10 leikina. Hamarsmenn hafa aðeins tapað einni hrinu en unnið 30! Þeir unnu KA 3:0 á Akureyri í haust.

HK er með 23 stig í öðru sæti sem stendur, einnig eftir 10 leiki, og KA í þriðja sæti með 19 stig, eftir átta leiki. KA-strákarnir mæta næst Vestra og svo Þrótti úr Vogum og ættu að vinna báða þá leiki. Eftir það eiga bæði Hamar og KA sjö leiki eftir; þar á meðal er rimma þeirra, seinni leikur Hamars og KA í deildinni verður í Hveragerði 18. apríl.

Miguel Mateo Castrillo gerði 13 stig fyrir KA í kvöld, Alexander Arnar Þórisson 11, Oscar Fernández Celis og André Collins dos Santos gerðu 9 stig hvor, Beneditk Rúnar Valtýsson 5 og Filip Pawel Szewczyk 3.

KA TV sýndi leikinn beint að vanda. Hægt er að horfa á leikinn með því að smella hér