Fara í efni
Íþróttir

Mjög öflugur leikmaður til kvennaliðs KA

Mireia Orozco ásamt Miguel Mateo Castrillo, þjálfara kvennaliðs KA, til vinstri, og Arnari Má Sigurðssyni, formanni blakdeildar KA.

Kvennaliði KA í blaki hefur borist mikill liðsstyrkur; Mireia Orozco skrifaði í gær undir samning við blakdeild félagsins. Hún er 27 ára Spánverji og er gríðarlega öflugur kantsmassari, skv. frétt á heimsíðu KA, þar sem segir að Mireia muni styrkja öflugt lið enn frekar.

„Mireia gengur til liðs við KA frá Club Voleibol Sant Cugat sem leikur í spænsku ofurdeildinni. Mireia hefur verið mjög áberandi á Spáni undanfarin ár og þar sem hún hefur verið ein af bestu kantsmössurunum. Hún lék með CVB Barcelona frá 2014 til 2018 og í kjölfarið lék hún með Sant Cugat. Árin 2018 og 2019 var hún valin í stjörnuleikinn í ofurdeildinni auk þess sem hún lék í Meistaradeild Evrópu með Barcelona árin 2017 og 2018,“ segir á heimasíðu KA.

Fyrsti leikur Mireiu verður strax á sunnudaginn þegar lið Álftaness sækir KA heim. Leikurinn hefst klukkan 15 og verður sýndur beint á KA-TV.