Fara í efni
Íþróttir

Mikilvægur sigur Þórs/KA - MYNDIR

Fyrir leik Þórs/KA og FHL fengu þær Margrét Árnadóttir og Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir afhentar treyjur sem viðurkenningu fyrir leikjaáfanga. Örfáum mínútum eftir að þessi mynd var tekin hafði Kimberley Dóra náð forystunni fyrir Þór/KA. Myndir: Ármann Hinrik.

Þór/KA vann FHL í 14. umferð Bestu deildar kvenna í Boganum í gær, eins og fjallað var um í annarri frétt Akureyri.net í morgun. Ármann Hinrik var staddur á leiknum með myndavél og tók meðal annars þessar myndasyrpur sem hér birtast.

  • 2. mínúta: 1-0 - Fyrir leik var Ármann Hinrik mættur á hliðarlínuna þar sem þau Dóra Sif Sigtryggsdóttir, formaður stjórnar Þórs/KA, og Birgir Örn Reynisson varaformaður færðu Margréti Árnadóttur og Kimberley Dóru Hjálmarsdóttur treyjur að gjöf sem viðurkenningarvott fyrir leikjaáfanga. Ármann hefur svo líklega verið á leiðinni að koma sér fyrir á góðum myndatökustað þegar leikurinn hófst. Kimberley Dóra var ekkert að bíða eftir Ármanni heldur náði forystunni fyrir Þór/KA eftir rúmlega 90 sekúndna leik með skoti í slá og inn eftir hornspyrnu Karenar Maríu Sigurgeirsdóttur og skalla Agnesar Birtu Stefánsdóttur. Ármann náði þó mynd af af leikmönnum fagna markinu. 

  • 19. mínúta: 2-0 - Markvörður FHL handsamaði boltann eftir að Sonja Björg komst í færi vinstra megin á markteigslínunni. Boltanum sparkað fram, þar er Margrét Árnadóttir mætt og skallar boltann til Karenar Maríu. Eftir smá átök við leikmann gestanna liggur boltinn vel fyrir vinstri fæti Karenar Maríu og hún lætur vaða, boltinn í háum boga og alveg upp við slá hægra megin í markinu. Fjórða markið hennar í Bestu deildinni í sumar og hennar 50. mark í meistaraflokki í öllum keppnum.

  • 53. mínúta: 3-0 - Pressa fremstu línu Þórs/KA skilaði slakri sendingu fram völlinn, beint til Huldu Bjargar Hannesdóttur. Hún tók boltann í fyrstu snertingu fram hægri kantinn þar sem Hulda Ósk Jónsdóttir hafði nóg pláss. Hún brunaði áfram hægra megin við vítateiginn, sendi háan bolta fyrir og þar mætti Sandra María og stangaði boltann í netið. Tíunda mark Söndru Maríu í deildinni í sumar og líklega fimmta stoðsending Huldu Óskar.

  • 70. mínúta - misnotað víti - Dómari leiksins dæmdi víti á FHL þegar 70 mínútur voru liðnar af leiknum. Margrét Árnadóttir átti þá fyrirgjöf á fjærstöng þar sem Sandra María stakk sér fram fyrir varnarmann og ætlaði að ná til boltans, en af myndbandsupptöku virðist sem varnarmaður togi í handlegg hennar svo hún fellur. Ljósmyndarinn okkar sat þar skammt hjá með myndavélina og var ósammála dómaranum. Sandra María fór sjálf á vítapunktinn, en hin 18 ára Embla Fönn Jónsdóttir í marki FHL varði spyrnu Söndru Maríu. 

  • 94. mínúta: 4-0 - Henríetta Ágústsdóttir tók aukaspyrnu hægra megin, nokkrum metrum utan og hægra megin við vítateigshornið. Varnarmaður FHL skallar frá, en Agnes Birta Stefánsdóttir nær boltanum vinstra megin í teignum, rennir honum út til Bríetar Fjólu Bjarnadóttur sem leggur hann fyrir sig með einni snertingu og sendir hann í fallegum boga upp í fjærhornið.