Fara í efni
Íþróttir

Metnaðarfull áætlun fyrir sveitarfélagið

  • Akureyri.net bauð oddvitum allra flokka í bæjarstjórn Akureyrar að skrifa grein til birtingar fyrir seinni umræðu um fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar sem fram fer á morgun. Hér er grein oddvita Sjálfstæðisflokksins.

Þá er fyrsta fjárhagsáætlun nýs meirihluta að líta dagsins ljós. Ég er virkilega ánægður með niðurstöðuna og tel okkur hafa náð að setja fram metnaðarfulla áætlun fyrir sveitarfélagið okkar. Þar er horft til framtíðar og mikilvægi þess að byggja sveitarfélagið upp. Við viljum að sveitarfélagið sé samkeppnishæft við önnur sveitarfélög og að það þyki góður kostur fyrir fólk að lifa og starfa í.

Eitt af markmiðum okkar er að reyna eftir fremsta megni að draga úr álögum á íbúa sveitarfélagsins. Eins og fólki er kunnugt hefur fasteignaverð hækkað töluvert síðustu misserin. Við í meirihlutanum höfum ákveðið að bregðast við því með því að lækka fasteignaskattsprósentuna þannig að hækkun fasteignaskatts verði ekki eins mikil og stefndi í. Við ákváðum einnig að hækka ekki gjaldskrá fyrir dvalartíma barna í leikskólum til að draga úr álögum á unga fólkið okkar. Á næstu árum munum við finna leiðir til lækka álögur á bæjarbúa enn frekar.

Heilsueflandi samfélag er eilíft verkefni í öllum sveitarfélögum en við erum í okkar fjárhagsáætlun að búa til umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Við erum því m.a. að hækka frístundastyrkinn og bjóða bæjarbúum upp á lýðheilsukort á góðum kjörum sem mun nýtast fjölskyldum til að efla heilbrigðan lífsstíl. Við munum síðan skoða vel hvort við getum ekki þróað það kort á næstu árum þannig að það nýtist enn fleirum.

Það er jákvæð niðurstaða að ríkið ætli að taka meiri hlutdeild í málaflokki fatlaðs fólks. Mikilvægt er að stytta biðtíma þeirra sem eru á bið eftir þjónustuíbúðum í búsetukjörnum. Ljóst er að Hafnarstræti 16 verður tilbúið árið 2024. En samhliða þeirri uppbyggingu höfum við ákveðið að flýta framkvæmdum við búsetukjarna fyrir fatlað fólk í Nonnahaga. Við höfum einnig sett aukið fjármagn í stofnframlög til bygginga óhagnaðardrifinna íbúða sem vonandi styttir biðtíma eftir félagslegu leiguhúsnæði.

Í framkvæmdaráætlun 2023–2026 er t.d. gert ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu á KA-svæðinu, Hlíðarfjalli, Glerárskóla, skólalóðinni í Síðuskóla, Móahverfi, gervigras á Þórsvellinum ásamt fleirum mikilvægum verkefnum.

Við munum leggja ríka áherslu á ábyrga og trausta fjármálastjórnun á kjörtímabilinu. Hún felst í því að jafnvægi sé í rekstri og rekstrarniðurstöðu sveitarfélagsins. Þá þarf að leita leiða til að greiða niður lán og reyna að takmarka nýjar lántökur. Það teljum við að okkur hafi tekist í þessari fjárhagsáætlun þó svo að stefnt sé að töluverðri uppbyggingu í sveitarfélaginu á kjörtímabilinu.

Heimir Örn Árnason er oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri