Fara í efni
Íþróttir

Lokabaráttan hefst um Íslandsbikar karla

„Gömlu brýnin“ Andri Mikaelsson, fyrirliði, og Orri Blöndal, eftir að SA Víkingar urðu Íslandsmeistarar á síðasta ári. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí karla hefst í kvöld, þegar lið Skautafélags Akureyrar, SA Víkingar, tekur á móti Skautafélagi Reykjavíkur. Leikurinn hefst í Skautahöllinni klukkan 19.30.

Akureyringar urðu efstir í Hertz-deildinni og þar með deildarmeistarar, en nú tekur „alvaran“ við. Sigra þarf í þremur leikjum til þess að hampa Íslandsbikarnum.

Full ástæða er til þess að hvetja Akureyringa til að mæta og hvetja sína menn í lokabaráttunni í þessari stórskemmtilegu íþrótt. „Miðaverð er 1500 kr. en frítt inn fyrir 16 ára og yngri. Við hvetjum fólk til þess að mæta í rauðu og litum þannig stúkuna í okkar lit,“ segir á vef Skautafélags Akureyrar.

Leikirnir í úrslitakeppninni:

  1. þriðjudag 22. mars á Akureyri – 19:30
  2. fimmtudag 24. mars í Reykjavík – 19:45
  3. laugardag 26. mars á Akureyri – 16:45
  4. þriðjudag 29. mars í Reykjavík – ef með þarf
  5. fimmtudag 31. mars á Akureyri – ef með þarf

Leikirnir í Reykjavík fara fram í Skautahöllinni í Laugardal.