Fara í efni
Íþróttir

Lokabaráttan hefst um Íslandsbikar karla

„Gömlu brýnin“ Andri Mikaelsson, fyrirliði, og Orri Blöndal, eftir að SA Víkingar urðu Íslandsmeista…
„Gömlu brýnin“ Andri Mikaelsson, fyrirliði, og Orri Blöndal, eftir að SA Víkingar urðu Íslandsmeistarar á síðasta ári. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí karla hefst í kvöld, þegar lið Skautafélags Akureyrar, SA Víkingar, tekur á móti Skautafélagi Reykjavíkur. Leikurinn hefst í Skautahöllinni klukkan 19.30.

Akureyringar urðu efstir í Hertz-deildinni og þar með deildarmeistarar, en nú tekur „alvaran“ við. Sigra þarf í þremur leikjum til þess að hampa Íslandsbikarnum.

Full ástæða er til þess að hvetja Akureyringa til að mæta og hvetja sína menn í lokabaráttunni í þessari stórskemmtilegu íþrótt. „Miðaverð er 1500 kr. en frítt inn fyrir 16 ára og yngri. Við hvetjum fólk til þess að mæta í rauðu og litum þannig stúkuna í okkar lit,“ segir á vef Skautafélags Akureyrar.

Leikirnir í úrslitakeppninni:

  1. þriðjudag 22. mars á Akureyri – 19:30
  2. fimmtudag 24. mars í Reykjavík – 19:45
  3. laugardag 26. mars á Akureyri – 16:45
  4. þriðjudag 29. mars í Reykjavík – ef með þarf
  5. fimmtudag 31. mars á Akureyri – ef með þarf

Leikirnir í Reykjavík fara fram í Skautahöllinni í Laugardal.