Fara í efni
Íþróttir

Lengjudeildin: Góður heimasigur Þórs gegn Leikni

Ingimar Arnar Kristjánsson í baráttunni. Hann spilaði vel í sigrinum gegn Leikni, bæði í dag og á þriðjudaginn. Ljósmynd: Þórir Tryggvason

Þór vann 1:0 heimasigur gegn Leikni Reykjavík í þriðju umferð Lengjudeildar karla, næst efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu, í leik sem lauk nú fyrir stuttu. Valdimar Daði Sævarsson gerði eina mark leiksins.

Þetta var annar sigur Þórsliðsins á Leikni á fimm dögum en liðin mættust í Mjólkurbikarnum á þriðjudaginn var. Heimamenn byrjuðu mun betur og komust verðskuldað yfir á 10. mínútu leiksins þegar Valdimar Daði slapp í gegn og skoraði.

Eftir þetta sóttu Leiknismenn í sig veðrið og ógnuðu töluvert. Í seinni hálfleik héldu Leiknismenn áfram að sækja og vera meira með boltann en Þórsliðið fékk einnig sín færi eftir vel útfærðar skyndisóknir. Það fór þó svo að fleiri mörk voru ekki skoruð og 1:0 sigur Þórs staðreynd. Þetta er í fyrsta skipti sem liðið heldur hreinu í deildinni á tímabilinu.

Eftir leikinn eru Þórsarar með sex stig eftir þrjár umferðir.

Nánar á eftir.