Fara í efni
Íþróttir

Lélegur lokakafli, leki og tap í Höllinni

Björn Halldór Sveinsson ræðir við dómara eftir að leikur Þórs og Snæfell stöðvaðist vegna leka í Höllinni. Mynd: Guðjón Andri Gylfason.

Þórsarar töpuðu fyrir Snæfelli á heimavelli í 1. deild karla í körfuknattleik í gærkvöld, 73-74. Afar slakur lokakafli í sveiflukenndum leik varð Þórsurum að falli í leiknum. Talsverð töf varð á leiknum í þriðja leikhluta vegna leka í Íþróttahöllinni. „Kofinn lekur og allt stopp í lok þriðja leikhluta þar sem skotklukkan er ónýt. Við þurfum íþróttahús í Þorpið, helst í gær,“ skrifaði stjórnarmaður í körfuknattleiksdeild Þórs á Facebook og birti myndband með þegar leikurinn var stopp. 

Paco Del Aquilla í baráttu undir körfunni. Hann skoraði flest stig Þórsara og tók flest fráköst í leiknum í gær. Mynd: Guðjón Andri Gylfason.

Leikurinn var nokkuð jafn í fyrri hálfleiknum, en Snæfell þó með forystuna lengst af, aldrei þó meira en sex stig. Þórsarar náðu þriggja stiga forystu í lok fyrri hálfleiksins. Um miðjan þriðja leikhlutann var forysta Þórs orðin 14 stig, en hún hvarf á nokkrum mínútum og hnífjanft fyrir lokafjórðunginn, 60-60. Þá kom annað áhlaup frá Þórsurum, sem dugði þó ekki þegar upp var staðið.

Þegar rétt rúmar fjórar mínútur lifðu leiks höfðu Þórsarar tíu stiga forystu 73-63 eftir að Axel Arnarsson skoraði þriggja stiga körfu. En þá hrökk allt í baklás og stigin þrjú sem Axel skoraði reyndust síðustu stig Þórs í leiknum. Snæfell skoraði 11 síðustu stig leiksins og vann leikinn með eins stigs mun, 74-73.

Þór - Snæfell (16-18) (20-15) 36-33 (24-27) (13-14) 73-74

Paco Del Aquilla var stigahæstur Þórsara með 16 stig og tók auk þess 12 fráköst. Páll Nóel Hjálmarsson kom næstur með 14 stig. Hjá Hólmurum var það Jakorie Smith sem var atkvæðamestur með 21 stig og Aytor Johnson Alberto næstur með 20 stig.

Helstu tölur leikmanna Þórs, stig/fráköst/stoðsendingar

  • Paco Del Aquilla 16/12/1 - 24 framlagspunktar
  • Páll Nóel Hjálmarsosn 14/1/0
  • Hákon Hilmir Arnarsson 13/5/3
  • Christian Caldwell 12/10/4
  • Helgi Hjörleifsson 6/1/1
  • Týr Óskar Pratiksson 5/1/1
  • Axel Arnarsson 4/3/4
  • Smári Jónsson 3/5/4

Tölfræði leiksins.

Staðan í deildinni.

Þórsarar eru áfram í 10. sæti deildarinnar með þrjá sigra í 14 leikjum, en Snæfell er sæti ofar með fimm sigra.