Fara í efni
Íþróttir

Lausaganga katta bara bönnuð um nætur

Ljósmynd: María Helena Tryggvadóttir

Bæjarstjórn ákvað í dag að falla frá umdeildri ákvörðun um að banna alfarið lausagöngu katta frá árinu 2025. Ferðafrelsi katta verður þó ákveðnum takmörkunum háð; lausaganga þeirra verður bönnuð að næturlagi – frá miðnætti til klukkan sjö að morgni.

Óhætt er að segja að ákvörðun bæjarstjórnar, sem óvænt var tekin á fundi í nóvember á síðasta ári, hafi hlotið mikil viðbrögð; sumir voru sáttir en mun fleiri þeirra sem létu í sér heyra voru vægast sagt óánægðir.

  • Frétt Akureyri.net um bannið í nóvember má sjá hér en hún vakti gríðarleg viðbrögð.

Eva Hrund Einarsdóttir bæjarfulltrúi var málshefjandi á fundinum í nóvember og lagði fram tillögu þess efnis að samþykktir um kattahald yrðu endurskoðaðar. Við umræður kom í ljós að meirihluti bæjarstjórnar vildi ganga enn lengra en tillaga Evu Hrundar og svo fór að meirihlutinn – sjö bæjarfulltrúar af 11 – samþykktu bann við lausagöngu.

„Afar skiptar skoðanir“

Eva Hrund lagði fram bókun á fundi bæjarstjórnar í dag sem eftir miklar umræður var samþykkt samhljóða. Þar segir, eins og áður kom fram, að fallið skuli frá þeirri ákvörðun að lausaganga katta verði alfarið bönnuð.

„Það er ekkert launungarmál og hefur bæði komið fram í umræðu og í könnunum að það eru afar skiptar skoðanir meðal bæjarbúa varðandi lausagöngu katta. Til þess að að ná fram sátt í málinu þá samþykkir bæjarstjórn að samþykktum um kattahald í Akureyrarbæ verði breytt með það að markmiði að sem flestir geti vel við unað,“ segir í bókun Evu Hrundar.

„Bæjarstjórn samþykkir því að gerðar verði breytingar á 2. grein samþykkta um kattahald þar sem sett verði inn tilmæli er snúa að varptíma fugla auk þess sem sett er inn að lausaganga katta verði ekki heimil að næturlagi frá kl. 24.00 til 7.00 og taki það ákvæði gildi frá og með næstu áramótum.

Jafnframt leggur bæjarstjórn ríka áherslu á að nú þegar verði markviss vinna sett í það að framfylgja samþykktunum með sérstakri áherslu á ábyrgð eigenda og skráningarskyldu.

Bæjarstjórn samþykkir framlagðar tillögur um breytingar á samþykktum um kattahald í Akureyrarbæ og vísar til síðari umræðu og endanlegarar afgreiðslu bæjarstjórnar.“

Fjögur vildu ganga lengra

Bókun Evu Hrundar var samþykkt samhljóða sem fyrr segir. Fjórir bæjarfullrúar lögðu þó fram sérstaka bókun; Hilda Jana Gísladóttir, Halla Björk Reynisdóttir, Heimir Haraldsson og Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir. Þar segir: „Okkur hefði þótt réttara að fallið hefði verið alfarið frá þeirri ákvörðun sem tekin var á bæjarstjórnarfundi þann 2. nóvember og leggja í kjölfarið áherslu á að fara í fyrsta sinn í það verkefni að framfylgja gildandi samþykktum. Við teljum hins vegar að sú breyting sem lögð er til á samþykktinni vera tilraunarinnar virði í því að sætta sjónarmið, enda til mikils batnaðar frá fyrri ákvörðun.“