Fara í efni
Íþróttir

Landsliðskonur léku sér á ísilögðu Hólavatni

Standandi, frá vinstri: Berglind Rós Leifsdóttir, Teresa Regína Snorradóttir og Kolbrún María Garðar…
Standandi, frá vinstri: Berglind Rós Leifsdóttir, Teresa Regína Snorradóttir og Kolbrún María Garðarsdóttir. Fyrir framan eru Silvía Rán Björgvinsdóttir, til vinstri, og Sunna Björgvinsdóttir.

Fimm landsliðskonur í íshokkí brugðu nokkrum sinnum á leik á dögunum, reimuðu á sig keppnisskóna, drógu fram kylfurnar og pökkinn og léku sér á ísilögðu Hólavatni frammi í firði. Mjög kalt var í töluverðan tíma svo innarlega í Eyjafirði og langt síðan vatnið lagði. Nú hefur reyndar hlýnað í veðrið, tímabundið.

„Þetta er bara eins og þegar maður var krakki á tjörninni í Innbænum,“ segir ein þeirra, Sunna Björgvinsdóttir, við Akureyri.net, og hefur augljóslega gaman af. „Við notuðum skó sem mörk!“ 

Þrjár stúlknanna eru hér heima í jólafríi; tvær leika með liði í Svíþjóð og ein með háskólaliði í Bandaríkjunum. Reyndar má segja að hálfgerðar ýkjur séu að nota orðið „leika með“, að minnsta kosti þegar Silvía Rán Björgvinsdóttir á í hlut, því ekkert hefur verið leikið í háskóladeildinni vegna kórónuveirufaraldursins síðan hún hélt vestur um haf í ágúst. Silvía Rán er við nám í Norwich University í Vermont ríki.

Sunna, sem áður er nefnd og valin var íshokkíkona ársins af Íshokkísambandi Íslands fyrir helgi, og Berglind Rós Leifsdóttir, leika báðar með IF Troja-Ljungby í næst efstu deild í Svíþjóð. Þar var keppt framan af hausti en nokkuð er síðan hlé var gert á deildinni og þær komu því heim í jólafrí. Síðasta vetur léku bæði Sunna og Silvía Rán með sænska liðinu Södertälje SK.

Ekki leikið fyrr en 30. júní?

Enginn þeirra hefur mátt æfa formlega undanfarið en á fimmtudag gat lið Skautafélags Akureyrar hafið æfingar á ný, eins og önnur íþróttalið, samkvæmt nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra, og „útlendingarnir“ fengu að vera með. Sunna, Berglind og Silvía munu æfa af fullum krafti með fyrrum félögum sínum í SA þar til þær halda út aftur, en Sunna segir raunar alveg óljóst hvenær þær Berglind fara til Svíþjóðar á ný – eða hvort þær fari yfirhöfuð aftur í vetur.

„Við fengum þau skilaboð að utan á fimmtudaginn að búið sé að setja þær reglur í Svíþjóð að aðeins 10 megi mæta á æfingu í einu og að engir leikir verði fyrr en 30. júní!” sagði hún í gær. Reyndar var tekið fram að einhverjar líkur væru á því að því yrði breytt, en allt er að minnsta kosti í lausu lofti eins og er. Ef deildin byrjar aftur fljótlega förum við út, en verðum að sjá til hvað gerist fyrst svona fáir mega æfa í einu og ef ekkert verður spilað í vetur,” segir Sunna Björgvinsdóttir.