Fara í efni
Íþróttir

L-listinn svarar spurningum lesenda

L-listinn svarar nú spurningum lesenda Akureyri.net í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna. Öll framboðin fengu sendar spurningar og hér eru svör L-listans við hluta þeirra.

SPURT ER – Hver er afstaða til spítalabrekkunnar með tilliti til byggingarstefnu Akureyrarbæjar og umsagnar Minjastofnunar um málið?

SVAR – L-listinn telur að nýta eigi þetta svæði undir íbúðabyggð og þarna sé að mörgu leyti hentugt að byggja fleiri íbúðir en upphaflega var gert ráð fyrir. Íbúðir þarna geti meðal annars nýst spítalanum. Skoða þurfi málið upp á nýtt með úrskurði Minjastofnunar og ræða betur við SAk um framtíðaráform sjúkrahússins fyrir ofan þetta svæði. Skoða þurfi hvort færa megi ,,Sóttvarnarhúsið" innan sjúkrahússsvæðisins en Minjastofnun lagði áherslu á menningargildi húsins í tengslum við spítalasögu Akureyrar.

SPURT ER Hver er afstaða til Glerárlaugar?

SVAR Við viljum efla Glerárlaug og hafa hana opna, enda styður það við markmið okkar um heilsueflingu.

SPURT ER Hver er afstaða til gjaldfrjáls strætós?

SVAR – L-listinn hefur alltaf lagt áherslu á að strætó sé gjaldfrjáls og gerir það áfram.

SPURT ER Hvaða skoðun hafa framboðin á nýja miðbæjarskipulaginu þar sem á að byggja á flestum bílastæðum miðbæjarins? Kemur til greina að draga úr byggingamagni? Er stefnt að því að byggt verði í „gamaldags“ stíl, svipað og við Austurbrú, sem væri betur í samræmi við td. Innbæinn og byggðina þar norðan við, frekar en stóra steinkumbalda?

SVAR – Forsendur fyrir uppbyggingu í miðbænum eru töluvert breyttar með hærra húsnæðisverði. Með hærra verði koma meiri tekjur til bæjarins og betri möguleikar að stjórna því hvað verður byggt. Núverandi skipulag hefu mikla galla, þrengt var að miðbænum með því að halda 2+2 vegi í gegnum svæðið, nánast ómögulegt er að búa til austur-vestur ása og lítil sem engin tenging næst við Pollinn. Við útilokum ekki að endurskoða skipulagið. Við trúum því að miðbær sem fólk skynjar sem fallegan og skemmtilegan stað þar sem því líður vel skipti Akureyri sem búsetusvæði miklu máli. Sama á við ferðaþjónustuna. Stórir steinkumbaldar virðast ekki þjóna því markmiði. Sum okkar vildu ekkert frekar en uppbyggingu í klassískum stíl. Á Selfossi er augljóst hvaða áhrif falleg hús í klassískum stíl hafa. Önnur okkar hafa ekki eins miklar skoðanir á stílnum en allir vilja miðbæ sem þeir geta verið stoltir af.

SPURT ER – Er staðfastur vilji til þess að tryggja almenningi áfram svipaðan aðgang að Glerárlaug og verið hefur á liðnum árum?

SVAR – L-listinn og þá sérstaklega oddvitinn hefur sagt það alveg skýrt að við viljum efla Glerárlaug og hafa hana opna fyrir almenning sem og fasta hópa.

SPURT ER – Er vilji til þess að draga til baka, a.m.k. að einhverju leyti, nýorðnar breytingar á bílastæðafyrirkomulagi í miðbæ Akureyrar, t.d. láta gamla klukkufyrirkomulagið gilda fyrir þá sem það vilja?

SVAR – Við viljum fara vel yfir allar forsendur og þær athugasemdir sem komið hafa og getum alveg hugsað okkur að draga breytingarnar að einhverju leyti til baka.

SPURT ER – Krossanesborgir eru náttúruperla okkar Akureyringa. Það þarf að laga göngustíga og setja bekki að mínu mati. Hver er skoðun framboðanna á því?

SVAR – Við tökum heilshugar undir það.

SPURT ER – Ég hjóla mikið, og mér finnst vanta hjólageymslu eða svæði sem er hægt geyma hjólið meðan maður er að erindast í miðbænum. Hvað segja framboðin um það?

SVAR – Við teljum að koma þurfi upp amk. hjólagrindum sem hægt er að læsa hjólum við. Til framtíðar þarf að finna stað fyrir hjólageymslu.

SPURT ER – Hver er stefna framboðanna í skólamálum? (Væri gaman að fá annað en hið einfalda svar að þar sé unnið frábært starf og stefnt að því að svo verði áfram!)

SVAR – X L-listinn telur brýnna nú en oft áður að efla ráðgjöf og stoðþjónustu og færa hana inn í grunnskólana í þeim tilgangi að styrkja skólastarf og bregðast fyrr við ef börn lenda í tilfinningalegum eða geðrænum vanda og leggja til grundvallar farsældarlögin í allri þjónustu við börn. Skólar eiga að veita börnum jöfn tækifæri og við verðum að tryggja að svo sé.

Með því að fjölbreyttari þjónusta sé veitt innan veggja skólanna getum við betur náð því markmiði að útskrifa skapandi, lífsglaða og sjálfsörugga nemendur. Við viljum koma á meira samtali á milli starfsfólks, stjórnmálamanna og foreldra um skólanna og höfum trú á að með því náum við að móta sameiginlega framtíðarsýn börnunum til heilla. Við viljum efla frístundastarf í grunnskólum og tengja það betur íþrótta- og tómstundastarfi með það að markmiði að ná samfellu í vinnudag barna.

Við viljum stuðla að því að skólastarf komi betur til móts við þarfir allra barna með áhugasviðs- og persónumiðuðum verkefnum. Nemendum með íslensku sem annað tungumál hefur fjölgað mikið á undanförnum árum og við teljum mikilvægt að standa vel að móttöku þessara barna og auka stuðning við þá með fjölbreyttum kennsluháttum, fræðslu og einstaklingsmiðuðu námi. Til þess að þetta sé hægt er nauðsynlegt að skólum séu tryggðar aðstæður til að gera það. Síðast en ekki síst viljum við í L-listanum gera skapandi námi hærra undir höfði með því að auka vægi verk- og listgreina í skólastarfinu.

Við í L-listanum gerum okkur grein fyrir því álagi sem skapaðist síðustu ár vegna heimsfaraldurs, en þá sýndi það sig hversu rík við erum af góðu starfsfólki, sem alla daga sýndi þrautseigju og hélt uppi lausnamiðuðu skólastarfi til að koma á móts við börnin í aðstæðum sem enginn þekkti. Við þurfum að vera viðbúin því að takast á við eftirköst faraldursins.

Þetta eru okkar helstu áherslur, en nánar má sjá stefnu L-listans á https://www.l-listinn.is

SPURT ER – Er ætlunin að standa við samþykkt um að lausaganga katta verði ekki heimil frá ársbyrjun 2025?
Bæjarstjórn hafði þegar samþykkt að breyta fyrri ákvörðun. 

SVAR – Sú ákvörðun hefur verið dregin til baka.

SPURT ER Hver er raunveruleg skuldastaða bæjarsjóðs, og b liður: hvernig ætla menn að leysa þá stöðu?

Þegar maður talar við þá sem vita um stöðu bæjarsjóðs þá verða þeir alltaf grafalvarlegir, tala um að staðan sé grafalvarleg og hún verði stóra málið næsta kjörtímabil. En út á við eru þessi sömu aðilar að beina kastljósinu frá þessari umræðu.

Mín spurning til allra framboð er því þessi:

Hver er skuldastaða bæjarsjóðs og hvað finnst þeim um hana? Er hún í eðlilegu samhengi við rekstur, er hún ekkert til að hafa áhyggjur af eða er hún eitthvað sem taka þarf sérstaklega á og þá hvernig?

SVAR – Akureyrarbær stendur vel þegar litið er til skuldastöðu og er ekki mjög skuldsettur í samanburði við önnur sveitarfélög í sama stærðarflokki. Heildarskuldir sem hlutfall af reglulegum tekjum eða skuldahlutfall var 86% í árslok 2021 en skv. sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 skal þetta hlutfall ekki vera hærra en 150%. Skuldastaðan er því ekki eitthvað sem þarf að hafa áhyggjur af. Rekstur sveitarfélagsins hefur verið þungur undanfarin ár og er líklegt að sú grafalvarlega staða sem þú talar um vísi til rekstrarniðurstöðu. Síðasta kjörtímabil hefur einkennst af aðhaldi og hagræðingu í rekstri. Miklar launahækkanir stytting vinnuviku og áhrif vegna COVID-19 komu illa við Akureyrarbæ og var rekstrarhallinn árið 2020 rúmlega 1,6 milljarðar króna. Mikil umskipti urðu á rekstrinum árið 2021 en þá var rekstrarafgangur upp á 750 milljónir króna. Skatttekjur hækkuðu mikið milla ára, rekstri Öldrunarheimila Akureyrar var skilað til ríkisins og mikið aðhald í rekstri og hagræðingaraðgerðir skiluðu betri afkomu. L-listinn mun hér eftir sem hingað til leggja áherslu á ábyrgan rekstur og halda áfram að sýna ábyrgð í ákvörðunartöku er varðar rekstrarútgjöld. Á sama tíma munum við leita leiða til þess að auka tekjur þannig að bæjarfélagið vaxi og dafni.

SPURT ER Hvað hyggjast framboðin gera til að styrkja stöðu hinsegin og kynsegin fólks á Akureyri? Vita hvernig þau ætla að tryggja fjölbreytileika á Akureyri og tryggja mannréttindi þessa hóps og möguleika til að njóta lífsins á Akureyri, í skólum, íþróttum, félagsstarfi og annars staðar í samfélaginu?

SVAR – Við í L-listanum höfnum hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki. Við viljum sveitarfélag þar sem íbúar eru jafnir án tillits til kyns, þjóðernis, trúar, aldurs, fötlunar, fjárhags eða annarrar stöðu. Við viljum samfélag sem leggur áherslu á fjölbreytileika og gefur rými fyrir öll.

Í stefnuskrá okkur má meðal annars finna eftirfarandi áherslur

  • Við höfnum hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki, t.d. eftir kynþætti, kynferði, kynvitundar, tungu, trú, þjóðerni, kynhneigð, búsetu eða nokkurs annars
  • Gera samning við samtökin 78 um fræðslu og ráðgjöf inn í skólana
  • Leggja áherslu á fjölbreytileikan

Auk þessa hefur Akureyrarbær mannréttindastefnu Alls konar Akureyri sem við viljum leggja áherslu á að fylgja. https://www.akureyri.is/static/research/files/mannrettindastefna_akureyrarbaejar_2020-2023pdf

SPURT ER Háspennulína, Blöndulína 3, er stórmál en ég er algjörlega mótfallinn því að það verði loftlína ofan við Giljahverfi og Móahverfi og að Rangárvöllum. Aðalskipulag Akureyrar gerir ráð fyrir að línan fari í jörðu frá sveitarfélagsmörkum og að Rangárvöllum. Fulltrúi Landsnets sagði í RÚV um daginn að ÞAÐ KÆMI EKKI TIL GREINA að leggja línuna í jörðu á þessum kafla.

  • Kjósendur verða að fá skýr svör frá öllum framboðum um þetta. Kemur til greina að mati framboðanna að falla frá því sem segir í aðalskipulagi bæjarins og gefa eftir þannig að Landsnet fái að hafa þetta loftlínu. Ég veit að það er stórmál að fá þetta rafmagn en líka STÓRMÁL að vita hvort komi til greina að bærinn gefi eftir. Ég verð að vita þetta áður en ég greiði atkvæði.

SVAR – Akureyri er landlítið sveitarfélag í örum vexti og L-listinn leggur áherslu á að línan verði lögð í jörðu svo að vaxtarmöguleikar bæjarins verði ekki skertir. Akureyri er eina þéttbýlið sem línan liggur í gegnum og hefur því sérstöðu hvað jarðstrengi varðar. Við viljum finna lausn í samvinnu við Landsnet hið fyrsta.