Fara í efni
Íþróttir

„Krefjandi verkefni en það er allt hægt“

Ásdís Guðmundsdóttir var frábær í síðasta leik - gerði 13 mörk úr jafn mörgum skotum. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

Kvennalið KA/Þórs í handbolta mætir Val að Hlíðarenda í Reykjavík í dag, í efstu deild Íslandsmótsins - Olísdeildinni - ef veðurguðinn lofar. Stelpurnar eiga að leggja í'ann suður akandi nú í bítið, klukkan sjö, og leikurinn er á dagskrá klukkan 15.00.

Valsarar eru efstir í deildinni, með 8 stig eftir 5 leiki, en KA/Þór með stigi minna, að jafn mörgum leikjum loknum. Fram er í þriðja sæti með 6 stig eftir 4 leiki og Framarar sækja lið KA/Þórs heim um næstu helgi. Skammt stórra högga á milli hjá „stelpunum okkar“ en Valur og Fram hafa átt bestu lið deildarinnar síðustu ár. 

Ásdís Guðmundsdóttir, sem átti frábæran leik í stórisigrinum (31:19) á HK á þriðjudaginn býst við mjög erfiðum leik í dag, eins og nærri má geta. „Við spiluðum æfingaleik við Val fyrir sunnan strax eftir Covid pásuna og þær unnu okkur með fimm mörkum,“ sagði Ásdís við Akureyri.net í gær.

Síðan hefur landsliðskonan Thea Imani Sturludóttir gengið til liðs við Val frá Danmörku. „Valsliðið er mjög sterkt, Lovísa Thompson er allt í öllu en Valsstelpurnar eru allar góðar. Þær spila mjög hraðan handbolta, eru bæði fljótar fram í sókn og til baka í vörnina. Það verður eitthvað hlaupið á morgun!“ sagði Ásdís og hló.

Lið KA/Þórs leggur áherslu á, eins og síðustu ár, að spila góða vörn. „Góð vörn og góð markvarsla eru lykilatriði og við höfum líka lagt áherslu á að vera fljótar fram,“ segir Ásdís.

Andstæðingurinn á morgun verður sá lang sterkasti það sem af er vetri. Martha Hermannsdóttir, fyrirliði KA/Þórs, heltist úr lestinni á dögunum vegna meiðsla og meiðsli og veikindi hafa hrjáð aðra leikmenn en Ásdís er þó hvergi bangin. „Við mætum grimmar. Þetta verður krefjandi verkefni en það er allt hægt.“

Ekki er hægt að sleppa Ásdísi öðru vísi en nefna frammistöðu hennar gegn HK á þriðjudaginn, þar sem hún gerði 13 mörk úr 13 skotum. „Þetta er örugglega besti leikur minn frá upphafi. Auðvitað á maður að skora úr öllum skotum – hornamenn og línumenn eiga að minnsta kosti að vera með góða nýtingu. Ég beið samt eiginlega eftir því í leiknum að klikka, en ég er reyndar alltaf örugg og með gott sjálfstraust,“ sagði þessi snjalli línumaður, sem væntanlega er einnig orðin aðal vítskytta liðsins. Fimm markana 13 gegn HK voru af vítalínunni.

Viðbót klukkan 9.07

KA birti þetta rétt í þessu: Leikjum dagsins hefur verið frestað vegna veðurs en til stóð að KA/Þór myndi mæta Val í toppslag Olísdeildar kvenna í handbolta og að KA myndi mæta KF í Kjarnafæðismóti karla í fótbolta.